Rauða fjöðrin á ferðinni næstu daga
Félagar í Lionsdeildinni í Reykhólahreppi fara um héraðið núna á morgun og um helgina með Rauðu fjöðrina og banka upp á hjá fólki. Fjöðrin er barmmerki sem Lionshreyfingin selur á fjögurra ára fresti að jafnaði og nýtir afraksturinn til einhvers ákveðins málefnis hverju sinni. Núna er Rauða fjöðrin á ferðinni í ellefta sinn á Íslandi og verður söfnunarfénu varið til kaupa og þjálfunar á blindrahundum.
Ekkert sérstakt verð er á Rauðu fjöðrinni, heldur leggur hver og einn fram það sem hann vill og verður Lionsfólkið með bauka meðferðis. Þess vegna væri gott að hafa einhverja peninga handbæra í þessu skyni.
Líka er hægt að leggja verkefninu lið með því að greiða valgreiðslu í heimabanka eða millifæra upphæð að eigin vali inn á reikning Lions:
0111-26-100230, kt. 640572-0869
Einnig er hægt að hringja í söfnunarsímanúmer:
- Styrkur að fjárhæð kr. 1.000 skuldfærist af símareikningi þegar hringt er í 904 1010.
- Styrkur að fjárhæð kr. 3.000 skuldfærist af símareikningi þegar hringt er í 904 1030.
- Styrkur að fjárhæð kr. 5.000 skuldfærist af símareikningi þegar hringt er í 904 1050.
Fyrsta söfnunin af þessu tagi hjá Lionshreyfingunni hérlendis fór fram árið 1972 og var ágóðanum varið til kaupa á tækjum fyrir augndeild Landakotsspítala. Fjórum árum síðar nutu þroskaheftir ágóðans er þeim voru færð tannlækningatæki. Meðal verkefna sem safnað hefur verið fyrir hér á landi í gegnum árin eru tækjabúnaður fyrir Landspítalann, sambýli fyrir fatlaða á Reykjalundi og gigtar- og öldrunarrannsóknir. Fyrir fjórum árum var safnað fé til hönnunar á íslenskum talgervli fyrir blinda og sjóndapra. Í síðustu söfnunum hefur safnast á bilinu 15-20 milljónir króna.
► Sjá nánar hér (pdf)