Tenglar

29. janúar 2016 |

Reri með hrútinn út í hafsauga og sökkti honum þar

Karakúl-sauðkind. Wikipedia.
Karakúl-sauðkind. Wikipedia.

Sauðfjárveikivarnir eru veikar beggja vegna í Reykhólahreppi. Reykhólahreppur er hreint svæði og þarf að að huga að því. MAST-girðingin liggur niðri og sauðfé leitar vestur til Barðastrandar í Vesturbyggð, heyjað er sunnan Gilsfjarðar í Dalabyggð og heyið flutt yfir sauðfjárveikivarnalínu inn á svæði Reykhólahrepps.

 

Ofanritað er meðal þess sem bókað var í almennum umræðum á fyrsta fundi dreifbýlisnefndar Reykhólahrepps, sem hér var greint frá. Af því tilefni skal hér birtur fróðleikskafli úr Inndjúpinu, bók eftir Jón Pál Halldórsson, sem Sögufélag Ísfirðinga gaf út núna í haust.

 

Árið 1933 voru fluttar inn frá Þýzkalandi 20 karakúlkindur, 15 hrútar og 5 ær. Féð var aðeins tvo mánuði í sóttkví og síðan dreift um landið. Þetta reyndust afdrifarík mistök, ekki sízt að dreifa fénu svona víða. Með því bárust eftirtaldar illræmdar fjárpestir: Votamæði (borgfirzka mæðiveikin), þurramæði (þingeyska mæðiveikin), visna, sjúkdómur sem veldur lömun í miðtaugakerfi, garnaveiki, ennþá útbreiddur sjúkdómur hér á landi, og kýlapest, sem finnst enn víða hér á landi.

 

Þessar pestir ollu gríðarlegu tjóni og snerist fjárræktarstarf á 4.-5. áratug 20. aldar mikið um ræktun annarra fjárstofna, sem sýndu þol gagnvart mæðiveikinni. Til að byrja með átti að reyna að losna við eða draga úr tjóni af völdum þessara sjúkdóma með lágmarksniðurskurði og ræktun á þolnari fjárstofnum. Jafnframt var farið að skipta landinu í varnarhólf með girðingum og bannað að flytja jórturdýr milli hólfa.

 

Haustið 1938 var lokið við girðingu úr Kollafirði í Austur-Barðastrandarsýslu yfir í Ísafjörð í Djúpi. Skipulagður niðurskurður hófst svo um 1940. Stóð hann fram yfir 1950 og var mjög stór hluti fjárstofnsins í landinu skorinn niður. Vestfirðir sluppu að mestu við þessa sjúkdóma og var fé af vestfirzkum stofni flutt í flest fjárskiptahólf landsins. Fimmti áratugurinn var því áratugur fjárskipta á Vestfjörðum. Voru stöðugir fjárflutningar á hverju hausti til annarra landshluta á þessum árum.

 

Hvað olli því, að Vestfirðirnir sluppu við þennan ófögnuð? Í minningargrein um Halldór Jónsson bónda á Arngerðareyri í Morgunblaðinu 27. sept. 1968 segir Jón Pálmason frá Akri, að Halldór Jónsson hafi komið til bjargar, ekki einn, en í félagi við fáa aðra ágæta bændur í Ísafjarðardjúpi, og þannig bjargað þjóðinni frá þeim mesta voða, sem yfir landið hefir dunið:

 

„Búnaðarþingsfulltrúinn úr Norður-Ísafjarðarsýslu vildi fá því framgengt að einn „Karakúl hrúturinn“ yrði keyptur vestur í Nauteyrarhrepp. Um þetta var haldinn fundur og skoðanir manna mjög skiptar. Búnaðarþingsfulltrúinn gekk svo langt að hann kom með skriflega yfirlýsingu frá tveimur félagsmönnum, sem voru fjarverandi, um að þeir væru kaupunum samþykkir. Halldór Jónsson bóndi á Arngerðareyri barðist mest gegn því að hrúturinn yrði keyptur og krafðist þess að ekki yrðu tekin gild atkvæði annarra en þeirra, er mættir voru á fundinum. Og á þessu valt, hrútakaupin voru felld. Þetta varð til þess að Vestfjörðum var bjargað frá þeim mesta voða sem íslenskur landbúnaður hefur mætt á þessari öld.“

 

Hrúturinn hefir að öllum líkindum lent norður í Strandasýslu. Matthías Helgason í Kaldrananesi á Ströndum keypti karakúlhrút, en gætti þess, að hafa hann aðskilinn frá öðru fé á bænum. Fljótlega varð hann þess var, að skepnan þreifst illa og virtist sjúk. Lagðist það ekki vel í bónda. Kaldrananesbóndinn greip þá til sinna ráða, skar sinn hrút og reri með hann út í hafsauga, þar sem hann sökkti honum. Hlaut hann almennt lof fyrir framtak sitt og fyrirhyggju.

 

Karakúlfé, Wikipedia á íslensku

 

Athugasemdir

Ægir Hraundal., laugardagur 30 janar kl: 04:46

Leifum ekki innflutning á lifandi sképnum, né óunnum kjötvörum til landsins sama hvað Evrópusambanið segir. Til helvítis með það yfirráða bákn sem er bara enn ein tilraunin til að ná heims yfirráðum, samanber Nasista.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31