Tenglar

24. september 2019 | Sveinn Ragnarsson

Reykhólabúar í Landanum

Jóhanna Ösp Einarsdóttir
Jóhanna Ösp Einarsdóttir
1 af 8

Reykhólar fengu sínar 5 mínútur af frægð á sunnudagskvöldið þegar 300. Landaþátturinn var sendur út, héðan og þaðan af landinu í heilan sólarhring. Ákveðið var að taka á móti fólkinu frá sjónvarpinu, Sigríði Halldórsdóttur og Jóhannesi Jónssyni myndatökumanni, við Grettislaug.

 

Í tilefni af þessari heimsókn var öllum boðið frítt í sund og nýtti fólk sér það óspart.

 

Viðtal var við Jóhönnu Ösp Einarsdóttur tómstundafulltrúa um þessa 72 ára gömlu laug. Hún sagði frá byggingu hennar, sem Ungmennasamband Dala- og norður Breiðfirðinga stóð fyrir. Meðal annars að seldir voru happdrættismiðar til að fjármagna framkvæmdina, en einn slíkur hangir einmitt uppi á vegg í sundlaugarhúsinu. Sundlaugarhúsið var nýtt sem skólahúsnæði fyrstu árin, og skólastjórinn, Jens Guðmundsson sem var í forystu við byggingu laugarinnar bjó í kjallaranum með fjölskyldu sína, ásamt starfsfólki við skólann. Skólahald var í sundlaugarhúsinu þar til búið var að byggja „gamla skólann“ sem nú hýsir leikskólann.

 

Jóhanna sagði líka frá Grettislaug sem þessi laug er nefnd eftir, tóftin af henni er við hliðina, og þar baðaði Grettir Ásmundsson sig þegar hann hafði vetrarvist á Reykhólum hjá Þorgils Arasyni fyrir liðlega 1000 árum. Þá var eins og nú, auðveldara að ná í heitt vatn en kalt á Reykhólum.

 

Sigríður tók nokkra sundlaugargesti tali þar sem þeir nutu lífsins í heitu pottunum, bæði fulltrúa ungu kynslóðarinnar og þeirra eldri. Allir voru sammála um að laugin væri ómissandi og kváðust fara nokkuð oft í sund, nema Tryggvi Harðarson sveitarstjóri, hann sagðist ekki fara oft og bætti við í gríni að hann hefði verið dreginn með töngum niður eftir núna.

 

Myndirnar sem fylgja eru skjáskot úr þættinum.

 

 

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30