Tenglar

6. ágúst 2012 |

Reykhóladagar 2012 - án ykkar hefði þetta ekki tekist!

Girnileg Grundarepli.
Girnileg Grundarepli.

Byggðarhátíðin Reykhóladagar 2012 tókst með ágætum í alla staði. Gestir voru fleiri en nokkru sinni fyrr og veðrið lék við hvern sinn fingur þó að svolítið blési á laugardeginum. Verðlaun í fjölmörgum keppnisgreinum voru veitt á kvöldskemmtuninni í íþróttahúsinu. Hér í upphafi skal aðeins nefnt að fólkið á Grund fékk verðlaun fyrir glæsilegustu skreytingarnar. Upplýsingar um aðra sem verðlaun hlutu koma fram smátt og smátt í samantektinni hér að neðan, sem að langmestu er byggð á punktum frá Hörpu Eiríksdóttur ferðamálafulltrúa.

 

Harpa tekur fram að aldrei sé að vita nema eitthvað hafi gleymst í öllu umstanginu.

 

Reykhóladagarnir byrjuðu á fimmtudagskvöld á bíósýningum fyrir alla aldurshópa og var frítt inn. Þær voru í bátahlutanum á Báta- og hlunnindasýningunni og voru myndirnar sýndar á segli að hætti hússins.

 

Hátíðahöld föstudags byrjuðu á því að hestarnir Háleggur, Mósa og Örn heimsóttu Báta- og hlunnindasýninguna þar sem Fanney Sif og nokkrir af SEEDS-sjálfboðaliðunum teymdu undir krökkum á öllum aldri.

 

Um morguninn var einnig startað í Reykjanesmaraþoninu. Fjórar manneskjur og einn hundur hlupu hvert um sig hluta af hringnum. Sá sem fór frá Stað að Bjarkalundi (ekki hundurinn) ákvað að taka sprett frá Laugalandi inn að Hlíð en skokka aðra hluta leiðarninnar. Segja má að leiðin milli Laugalands og Hlíðar sé ekki mjög vel fallin til spretthlaups enda er þar bara kindaslóði á stórum hluta. Par sem fór leiðina frá Bjarkalundi að Reykhólum bæði skokkaði og hjólaði enda var ekkert tekið fram um ferðamáta.

 

Heimboðin í súpu á föstudeginum voru vel sótt og tóku Ásta á Grund, Báta- og hlunnindasýningin, Sjávarsmiðjan og Hrefna Jóns með aðstoð Steinu á Hellisbraut 24 á móti fólki. Hrefna var með gítarinn og spilaði fyrir gestina meðan þeir nutu súpunnar. Á Báta- og hlunnindasýningunni var einnig í boði þaraís sem var sérstaklega búinn til fyrir Reykhóladagana í ár. Hann fékk misgóðar viðtökur, eða þannig, en þótti engu að síður skemmtileg nýjung.

 

Eftir hádegi voru krakkar í aðalhlutverki í kassabílakeppni þar sem SEEDS-sjálfboðaliðarnir fengu að njóta sín við að velja flottasta bílinn.

 

Hæfileikakeppnin var vel sótt og voru áhorfendur um áttatíu. Keppendur voru sex og var skipt í tvo aldursflokka. Guðmundur Andri söng Rósina og varð í fyrsta sæti í yngri flokknum. Sara Halldórsdóttir sigraði í eldri flokknum með nútímadansi. Gaman að sjá krakkana prófa sig áfram.

 

Grillvagn frá Landssambandi sauðfjárbænda kom í Kvenfélagsgirðinguna (Kvennó) á Reykhólum og bauð öllum upp á létta máltíð (ef heilsteikt lömb geta talist létt máltíð). Félagar í Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna sáu um grillið og steiktu þar heila lambaskrokka og fleira. Grillveislan góða var í boði Landssambands sauðfjárbænda og Sauðfjárræktarfélags Reykhólahrepps og mættu þar hátt í 500 manns. Fanney Sif og Elínborg fóru síðan í leiki með krökkunum.

 

Síðasti viðburðurinn á föstudeginum var hin árlega spurningakeppni með þátttöku átta þriggja manna liða. Snillingarnir unnu Tútturnar í úrslitum, en sigurliðið skipuðu þeir Dalli, Eiríkur smiður og Gummi á Grund. Á meðan spurningum rigndi skelltu sjálfboðaliðarnir sér í það óvenjulega en áhugaverða verkefni að breiða risadúk yfir sparkvöllinn og setja svo á hann þara til notkunar daginn eftir.

 

Laugardagurinn hófst með þaraboltakeppni á sparkvellinum þar sem reglurnar voru búnar til á staðnum. Ekki leyndi sér að bæði keppendur og áhorfendur skemmtu sér vel og voru þeir fyrrnefndu nokkuð þaralegir þegar upp var staðið (úr blautum þaranum).

 

Nærri þrjátíu forntraktorar frá Seljanesi og Grund og öðrum bæjum í héraðinu komu með þaulskipulögðum hætti á Reykhóla. Þær fóru í halarófu um þorpið og röðuðu sér síðan á túninu handan götunnar hjá Báta- og hlunnindasýningunni og voru afmælisvélarnar fremstar í flokki.

 

Bjóðendur í súpu á laugardeginum voru Álftaland, Báta- og hlunnindasýningin, Sjávarsmiðjan, Herdís Erna á Reykjabraut 1, Hafdís og Einar á Reykjabraut 13, Björk og Elísabet á Hellisbraut 48 og afmælisbarnið Halla Valda á Hellisbraut 52. Nóg var að gera hjá þeim enda þorpið sneisafullt af gestum.

 

Hin árlega dráttarvélakeppni var það vinsæl að ekki komust allir að sem vildu. Sirrý í Álftalandi sigraði í kvennaflokki og Svavar Stefánsson í karlaflokki. Fjórtán keppendur voru í kvennaflokki og sautján í karlaflokki.

 

Í og hjá Reykhólaskóla var nóg um að vera. Þar voru hoppikastalar, kvenfélagið var með kaffisölu og markaðurinn hefur aldrei verið eins fjölbreyttur - vörur frá Erpsstöðum, þaratöflur, blöðrur og dúnvörur, svo fátt eitt sé nefnt. Búnaðarsamtök Vestfjarða voru með upplýsingastofu á efstu hæð og þar höfðu líka sjálfboðaliðarnir með aðstoð Hörpu sett upp fjölmarga muni Byggðasafns Reykhólahrepps. Í lok markaðarins komu Sigurdís og Elínborg Egilsdætur og sungu lag Reykhóladaga, Reykhólasveitin mín, sem enn er hægt að kaupa í upplýsingamiðstöðinni.

 

Þaraleikar voru um miðjan daginn og fengu keppendur að spreyta sig í alls konar þrautum í blautum þara. Vindurinn hafði aðstoðað við að gera braut á vellinum með því að lyfta seglinu aðeins.

 

190 pylsur voru grillaðar og þeim sporðrennt í pylsupartíinu með Felix Bergssyni í Kvennó. Yngri kynslóðin fékk þar afhent verðlaun fyrir ýmsar greinar á Reykhóladögum og síðan fóru Felix, Fanney og Ella með krökkunum í leiki.

 

Kvöldskemmtunin gerði mikla lukku hjá þeim sem hana sóttu. Tónlistaratriði frá okkar frábæra unga tónlistarfólki voru í fyrirrúmi en lokapunkturinn var þegar Harpa mætti með alla sína þrettán sjálfboðaliða og þau sungu með lagið Reykhólasveitin mín. Mikið var klappað fyrir allri þeirri vinnu sem sjálfboðaliðarnir höfðu innt af hendi vegna hátíðarinnar.

 

Hljómsveitin Úlrik úr Borgarnesi spilaði síðan fyrir gesti langt fram á nótt með fullt dansgólf allan tímann.

 

Fyrsti dagskrárliðurinn á sunnudeginum var léttmessan hjá sr. Elínu Hrund í Reykhólakirkju og sóttu hana hátt í 40 manns, þar á meðal af Dvalarheimilinu Barmahlíð. Gaman var að sjá svo marga taka þátt í þessari nýjung á Reykhóladögum.

 

Síðasti viðburður Reykhóladaganna var sundlaugarfjör í Grettislaug. Tvö stór plaströr voru sett yfir laugina og var farið í koddaslag og leiki. Hátt í 90 mættu og þar af voru um 65 sem tóku þátt í leikjunum.

 

Niðurlagsorð Hörpu Eiríksdóttur um Reykhóladaga 2012 eru þessi:

 

„Dagarnir voru mjög góðir. Það var æðislegt að hafa svona frábæra sjálfboðaliða með mér allan tímann. Líka komu margir aðrir að því að gera dagana svona flotta - eins og þeir sem fluttu rörin að og frá sundlauginni, Þörungaverksmiðjan sem kom með þarann og keypti seglið til að gera þaraboltann að veruleika, Erpsstaðir sem fóru í tilraunastarfsemi með þaraísinn, allir eigendur dráttarvélanna sem komu, Grundarbræður sem sáu um dráttarvélakeppnina og kassabílakeppnina, Sauðfjárræktarfélag Reykhólahrepps sem gekkst fyrir grillveislunni í Kvennó. Og allir hinir sem komu að Reykhóladögum 2012 - án ykkar hefði þetta ekki tekist!“

 

  • Minnt skal á fjórar syrpur af svipmyndum frá Reykhóladögum, alls 216 myndir, sem finna má undir Ljósmyndir / Myndasyrpur í valmyndinni hér vinstra megin.

 

Styrkjendur Reykhóladaga 2012 voru þessir - með ýmsum hætti (röðin af handahófi):

  • Þörungaverksmiðjan
  • Hólakaup
  • KM-þjónustan
  • Emmessís
  • Vífilfell
  • Ölgerðin
  • Penninn
  • Sauðfjársetur
  • Harpa Eiríksdóttir
  • Eaglefjord
  • Hótel Núpur
  • Íslensk hollusta
  • Reykskemman Stað
  • Strandagaldur
  • Dalli
  • Kómedíuleikhúsið
  • Heydalur
  • Melrakkasetrið
  • Strandahestar
  • Grettislaug
  • Skrímslasetrið
  • Urðartindur
  • Hótel Djúpavík
  • Hótel Laugarhóll
  • Báta- og hlunnindasýningin
  • Gullsteinn
  • Handverksfélagið ASSA
  • Ólína í Læknishúsinu í Flatey
  • Café Riis
  • Erpsstaðir

Og svo má auðvitað ekki gleyma öllum þeim sveitungum sem lögðu hönd á plóg til að gera Reykhóladaga 2012 eins flotta og raun bar vitni.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30