Reykhólahreppur: Reikningar ársins 2012 liggja fyrir
Ársreikningar Reykhólahrepps og stofnana hans fyrir árið 2012 voru samþykktir við síðari umræðu á aukafundi hreppsnefndar í fyrradag. Reikningana er að finna undir Stjórnsýsla - Ársreikningar og áætlanir í valmyndinni hér vinstra megin. Fram til þessa hefur Ársreikningur Reykhólahrepps og stofnana hans verið í einu skjali en núna eru reikningar hafnarsjóðs, leiguíbúða hreppsins og Barmahlíðar hver í sínu lagi eins og þarna má sjá.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2012 námu 348 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 313 millj. kr. Rekstrartekjur A-hluta námu 226 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 194 millj. kr.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt rekstrarreikningi A- og B-hluta var neikvæð um 1 millj. kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 6,2 millj. kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 2,9 millj. kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 6,7 millj. kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 298 millj. kr. en eigið fé A-hluta nam 339 millj. kr.