Tenglar

23. febrúar 2013 |

Reykhólahreppur: Þar sem firðirnir snúa mót suðri

Reykhólahreppur er meira en þúsund ferkílómetrar. Kort unnið úr grunni Landmælinga Íslands.
Reykhólahreppur er meira en þúsund ferkílómetrar. Kort unnið úr grunni Landmælinga Íslands.

Einhverjum kemur það kannski á óvart, jafnvel hundkunnugu fólki vestra, að Reykhólahreppur og Ísafjarðarbær skuli mætast á landamerkjum. Þetta er í einum punkti í tæplega 870 metra hæð á Glámuhálendinu upp af botni Arnarfjarðar, þar sem fyrrum var jökull. Í þessum punkti snertast reyndar fjögur sveitarfélög, þ.e. Vesturbyggð og Súðavíkurhreppur auk Reykhólahrepps og Ísafjarðarbæjar.

 

Nú kann að vera örðugt að benda nákvæmlega á þennan punkt, sem fræðilega séð er óendanlega lítill. En væri það hægt, þá mætti þarna stíga inn í fjögur sveitarfélög í jafnmörgum skrefum á jafnmörgum sekúndum.

 

Reykhólahreppur er meira en þúsund ferkílómetrar að flatarmáli, nánar tiltekið 1.090 ferkílómetrar skv. tölum Landmælinga Íslands. Vegalengdin um hreppinn endilangan úr miðjum Gilsfirði og vestur að Skiptá í Kjálkafirði er rétt um 120 kílómetrar eða svipuð og frá mörkum Reykhólahrepps og suður í Borgarnes.

 

Firðirnir í Reykhólahreppi teljast þrettán (Gilsfjörður, Króksfjörður, Berufjörður, Þorskafjörður, Djúpifjörður, Gufufjörður, Kollafjörður, Kvígindisfjörður, Skálmarfjörður, Vattarfjörður, Kerlingarfjörður, Mjóifjörður og Kjálkafjörður). Langflestir vita þeir mót suðri, en það er harla óvenjulegt á Íslandi. Auk þeirra munu aðeins vera þrír firðir hérlendis sem þannig snúa: Vatnsfjörður, næsti fjörður vestan við Kjálkafjörð, og svo Hesteyrarfjörður og Veiðileysufjörður í Jökulfjörðum.

 

Varðandi fjarðatalið í Reykhólahreppi getur verið álitamál hvað skuli teljast sérstakur fjörður. Í því efni eins og svo oft er spurning um skilgreiningar. Hér er farið eftir nafngiftum. Reyndar er langstærsta fjarðar Reykhólahrepps ógetið í þessari upptalningu: Sjálfs Breiðafjarðar, sem raunar er flói öllu frekar en fjörður.

 

Reykhólahreppur með núverandi landamærum varð til árið 1987 við sameiningu allra þáverandi sveitarfélaga í Austur-Barðastrandarsýslu, þ.e. Geiradalshrepps, Reykhólahrepps, Gufudalshrepps, Múlahrepps og Flateyjarhrepps. Þeim síðastnefnda tilheyrði mikill hluti Breiðafjarðareyja ásamt höfuðstaðnum Flatey og heyra þær nú undir Reykhólahrepp.

 

Þrennt er sagt óteljandi hérlendis og þar á meðal eyjarnar á Breiðafirði enda er enginn hreppur eins eyríkur og Reykhólahreppur. Breiðafjarðareyjar eru heimur út af fyrir sig hvort heldur varðar náttúru eða sögu. Allt fram á daga seinni heimsstyrjaldar var Flateyjarhreppur (Eyjahreppur) fjölmennastur hreppa í Austur-Barðastrandarsýslu og hafði þó fækkað þar verulega áratugina á undan. Fyrir og um aldamótin 1900 voru íbúarnir í Flateyjarhreppi á fimmta hundrað.

 

Landslag í Reykhólahreppi er mildara og hlýlegra en víðast hvar á Vestfjarðakjálkanum en samt er fjölbreytnin óendanleg. Hvarvetna á hinni löngu leið endanna á milli er eitthvað nýtt að sjá.

 

Hinu mjúkláta landslagi fylgir einstök gróðursæld. Á leiðinni út að Reykhólum er Barmahlíð (Hlíðin mín fríða ...), gróðri vafin á sumrum og einstaklega skrúðfögur í haustlitunum. Í Barmahlíð mun vera að finna hæstu skógartré á Vestfjarðakjálkanum og eina upprunalega torfbæinn. Það eru Barmar, sem Barmahlíðin er kennd við.

 

Sjávarföll hér við land eru hvergi meiri en í Breiðafirði og verður munur flóðs og fjöru allt að sex metrum í stórstraumi. Vegna grunnsævisins og þessa mikla fallamunar er útfiri gríðarmikið innst við Breiðafjörðinn og lífríkið á leirunum sem upp koma á fjöru er ómetanlegt fuglum í fæðuleit. Fjörur Breiðafjarðar eru taldar vera um fjórðungur af öllum fjörum landsins og mikill hluti þeirra er innan vébanda Reykhólahrepps.

 

Lengi á síðustu öld var Króksfjarðarnes merkt á landakortum sem kauptún, þorp. Áform og jafnvel óskhyggja um slíkt á sínum tíma hafa e.t.v. átt einhvern þátt í þessu, en íbúðarhús í Nesi hafa alla tíð verið of fá og staðið of strjált til að hægt hafi verið að tala um þorp eða kauptún í venjulegum skilningi þeirra hugtaka.

 

Þrátt fyrir það var Króksfjarðarnes lengi miðstöð héraðsins á ýmsan hátt. Í Nesi voru aðalstöðvar Kaupfélags Króksfjarðar, sem var jafnframt með útibú á Reykhólum og Skálanesi, þar voru símstöð og banki og pósthús og þar var sláturhús. Og þar er félagsheimilið Vogaland, sem núna er komið í einkaeigu rétt eins og kaupfélagshúsið. Hins vegar er verslunarrekstur ekki með öllu aflagður í kaupfélagshúsinu gamla í Króksfjarðarnesi, því að yfir sumarið er þar nytjamarkaður (handverk, bækur og nytjahlutir af öllu tagi) ásamt því sem kaffi og bakkelsi er á borðum.

 

Vegalengdin milli Reykjavíkur og Reykhólahrepps er aðeins um 195 kílómetrar. Til samanburðar má geta þess, að greiðasta leiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar sem haldið er opinni árið um kring er 455 kílómetrar skv. tölum Vegagerðarinnar.

 

- Leiðréttingar og athugasemdir óskast hér fyrir neðan.

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, mnudagur 25 febrar kl: 08:35

Þetta er góður texti.

Sigurbjörn Arnar Jónsson, mnudagur 04 mars kl: 18:43

Góðan daginn. Ég er í smá vandræðum með að finna kílómetrafjöldann á milli Reykhóla og Búðardals. Getur einhver góðhjartaður aðili sett það hingað inn ef til vill. Með fyrirfram þökk.

Umsjón, mivikudagur 15 febrar kl: 20:16

Milli Reykhóla og Búðardals eru réttir 75 kílómetrar.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31