Reykhólahreppur flytur viðskipti sín úr Landsbanka
Sveitarstjórn Reykhólahrepps harmar að eina bankaútibúið í héraðinu, útibú Landsbankans, skuli hafa verið lagt niður. Þetta kemur fram í bókun hreppsnefndar á fundi hennar í dag. „Sveitarstjórnin lýsir vanþóknun sinni á framkvæmd lokunarinnar og framkomu bankans við íbúa sveitarfélagsins“, segir einnig í bókuninni. Jafnframt var samþykkt tillaga Gústafs Jökuls Ólafssonar um að sveitarstjórn Reykhólahrepps flytji viðskipti sín frá Landsbankanum yfir til Sparisjóðs Strandamanna.
Sparisjóður Kirkjubóls- og Fellshreppa var stofnaður árið 1891 en nafninu var breytt í Sparisjóð Strandamanna árið 1995. Sparisjóður Árneshrepps sameinaðist honum síðan árið 1999. Sjóðurinn er því meðal elstu fjármálafyrirtækja í landinu.
Sparisjóður Strandamanna er nú með afgreiðslur á Hólmavík og á Norðurfirði. Samkvæmt heimasíðu sjóðsins býður hann upp á heildarlausnir í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja með áherslu á persónulega þjónustu.
þorgeir samúelsson, laugardagur 16 jn kl: 03:13
Ekki gleyma að fá tilboð frá bönkum og sparisjóðum um hraðbanka....notum eyðuna og hugsum pínulítið um þá viðskipta vini sem eru ekki með heimabanka....þeir geta greitt gíróseðla í hraðbanka....svo er það blessað ferðafólkið sem hefur lýst undrun sinni á að eki sé hér hraðbanki....bankastofnanir eru fyrir fólkið en...fólkið er ekki fyrir þá....þetta vantaði inn í annars góða umræðu..um bankaþjónustu á bjargi hins ósigraða...Reykhólahreppi