Reykhólahreppur í efsta flokki hvað fjárhag varðar
Íslandsbanki hefur gefið út samantekt um fjárhag sveitarfélaga miðað við árið 2011. Byggt er á sömu reikniforsendum og Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga notar. Eftir niðurstöðunum er sveitarfélögum skipt í fjóra flokka. Reykhólahreppur lendir þar í efsta flokki, en skilgreining hans er „Lítil skuldsetning og rekstur stendur vel undir núverandi skuldsetningu“.
Þrjú fjölmennustu sveitarfélögin á Vestfjörðum (Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Vesturbyggð) lenda í neðsta flokki, en skilgreining hans er „Mikil skuldsetning og rekstur stendur ekki undir skuldsetningu að öllu jöfnu“. Önnur sveitarfélög á Vestfjörðum lenda eins og Reykhólahreppur í efsta flokki.
Sveitarfélög á landinu voru 75 talsins árið 2011 en vegna sameininga hefur þeim fækkað í 73. Í skýrslu Íslandsbanka segir á einum stað:
Hugsanlega eru 30-40 sveitarfélög hæfilegur fjöldi á Íslandi miðað við íbúafjölda og stærð en ekki verður tekin afstaða til þess í þessu riti. Hins vegar er mikilvægt að sameiningarþróunin haldi áfram þannig að eftir standi færri og sterkari, vel rekin sveitarfélög út um allt land.
Í ljósi þessara ummæla vekur athygli, að mörg fjölmennustu sveitarfélög landsins lenda ekki í efsta flokki, þó að í honum séu fleiri sveitarfélög en í neðri flokkunum þremur samanlagt. Meðal þeirra sveitarfélaga sem komast ekki í efsta flokk eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Árborg, Vestmannaeyjabær, Borgarbyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður, Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð.
► Samantekt Íslandsbanka um fjárhag sveitarfélaga (pdf)