Reykhólahreppur kostar einna mestu til fræðslumála
Sveitarfélögin Fljótsdalshreppur, Hvalfjarðarsveit og Reykhólahreppur, sem öll eru fámenn, verja mestu fé allra sveitarfélaga landsins í hlutfalli við íbúafjölda til fræðslumála. Stærðarhagkvæmni í rekstri sveitarfélaga kemur vel í ljós þegar framlög til mennta-, menningar- og æskulýðsmála eru reiknuð eftir íbúafjölda hvers sveitarfélags. Þau fámennustu verja mun meira fé á hvern íbúa til þessara mála en þau fjölmennari.
Árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga var haldin í Reykjavík á fimmtudag og föstudag eins og hér hefur verið greint frá (þar má meðal annars lesa í heild setningarræðu formanns sambandsins, Halldórs Halldórssonar). Í fréttum Sjónvarps kvaðst Halldór vilja skoða sameiningu sveitarfélaga, fyrst og fremst hinna smærri, svo að einfaldara verði fyrir þau að taka við stærri verkefnum.
Í Árbók sveitarfélaga (sem lesa má hér á pdf-formi) má sjá skiptingu útgjalda þeirra eftir málaflokkum og deilt með íbúafjölda.