8. október 2013 | vefstjori@reykholar.is
Reykhólakirkja böðuð bleiku ljósi
Eins og venjulega á seinni árum er október helgaður baráttunni gegn krabbameini hjá konum og bleika slaufan frá Krabbameinsfélagi Íslands seld um land allt til fjáröflunar. Til að minna á þetta er Reykhólakirkja böðuð bleiku ljósi eftir að skyggja tekur. Núna á föstudag er bleiki dagurinn svonefndi en þá hvetur Krabbameinsfélagið landsmenn til að sýna samstöðu með áberandi hætti, klæðast bleiku eftir því sem tök eru á og hafa bleika litinn í fyrirrúmi. Bleika slaufan fæst m.a. í versluninni Hólakaupum á Reykhólum og kostar kr. 2.000.
Meðal aðildarfélaga Krabbameinsfélags Íslands er Krabbameinsfélag Breiðfirðinga, sem spannar Dalabyggð og Reykhólahrepp. Formaður þess er Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu í Reykhólasveit.