Reykhólamaður í efsta sæti í Trékyllisvík
Annað árið í röð sigraði Reykhólamaður á héraðsmótinu í brids, sem haldið er í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum 1. maí ár hvert og keppt í tvímenningi. Að þessu sinni urðu í fyrsta sæti þeir Eyvindur Magnússon á Reykhólum og Jón Stefánsson á Broddanesi. Í fyrra urðu efstir Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum og Björn Pálsson í Þorpum við Steingrímsfjörð.
Á mótinu núna urðu í öðru sæti Maríus Kárason á Hólmavík og Ólafur Gunnarsson í Þurranesi í Saurbæ og í þriðja sæti Þorsteinn Newton á Hólmavík og Jón Jónsson á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð.
Bridgefélag Hólmavíkur og Héraðssamband Strandamanna standa fyrir mótinu og hafa gestir fengið frábærar móttökur í Árneshreppi. Gestrisnin er þó ekki síðri á skákmótum sem þar eru haldin ár hvert með mikilli þátttöku öflugra langt að kominna skákmanna. Frumkvæðið að þeim á skákfrömuðurinn mikli Hrafn Jökulsson, sem á sínum tíma komst í sérstök tengsl við Trékyllisvík og Árneshrepp.
Á vegum Bridgefélags Hólmavíkur er spilað vikulega allan veturinn með góðri þátttöku bæði úr Dalasýslu og Reykhólahreppi.
Í för með Reykhólamönnunum Eyvindi Magnússyni og Guðjóni D. Gunnarssyni á mótið í Trékyllisvík var að þessu sinni eins og í fyrra Þórarinn Ólafsson í Stekkjarlundi við Berufjörð í Reykhólasveit. Hann fór að vísu ekki til að spila heldur sér til gamans og tók myndirnar sem hér fylgja, þar á meðal þrjár sem eru ekki frá spilamennskunni.
► 04.05.2012 Reykhólamaður sigraði á Strandamannamóti