Reykhólaprestakall lagt niður?
Kirkjuþing verður sett á laugardag. Meðal tillagna sem fyrir því liggja eru nýjar viðmiðunarreglur um fjölda prestsembætta og verður þeim fækkað talsvert verði reglurnar samþykktar. Á Vestfjörðum myndi þetta væntanlega bitna á tveimur prestaköllum, Þingeyrarprestakalli í Dýrafirði og Reykhólaprestakalli.
Þetta kemur fram á fréttavefnum bb.is á Ísafirði í dag.
Á leiðarþingi Vestfjarðaprófastsdæmis sem haldið var á Tálknafirði í gær voru þessi mál rædd.
„Ef þessi tillaga gengur eftir verður skorið niður um eina og hálfa stöðu á Vestfjörðum á næstu árum, en það var samdóma álit þeirra sem sóttu fundinn í gær að þeir myndu berjast af öllu afli gegn þessari tillögu,“ sagði sr. Leifur Ragnar Jónsson, sóknarprestur á Patreksfirði í samtali við bb.is. Hann sagði að ekki komi beinlínis fram í tillögunni hvar verði skorið niður, en ekki verði annað ráðið en að það verði á norðanverðum Vestfjörðum og á Reykhólum.
Í Reykhólaprestakalli eru sex kirkjusóknir, þ.e. Reykhólasókn, Staðarhólssókn, Garpsdalssókn, Gufudalssókn, Flateyjarsókn og Skarðssókn. Þarna er um að ræða allar sóknirnar fjórar í Austur-Barðastrandarsýslu og tvær í Dalasýslu.
► Öll fréttin hér á bb.is.