7. nóvember 2016 | Umsjón
Reykhólar: Hleðslustöð fyrir rafbíla
Orkusalan tilkynnti í síðasta mánuði að fyrirtækið hefði ákveðið að færa sveitarfélögum landsins rafbílahleðslustöð að gjöf. Nú er komið að Reykhólahreppi, og hefur fyrirtækið boðað komu starfsmanna með stöðina núna á miðvikudag.
Á vef Orkusölunnar segir:
Ísland er í lykilstöðu til að leiða rafbílabyltingu heimsins. Því tekur Orkusalan af skarið og gefur öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöð fyrir rafbíla. Þetta gerum við með það að leiðarljósi að auka þjónustu við rafbílaeigendur og gera þeim kleift að keyra hringinn í kringum landið, ávallt með fullan rafgeymi. Verkefnið er einstakt á heimsmælikvarða og risastórt skref í átt að rafbílavæddu Íslandi, með minni útblæstri og meiri virðingu fyrir náttúrunni.