Reykhólar: Lýst eftir kettinum Eldibrandi
Kötturinn á myndinni er hann Eldibrandur, sem kom eins og svo oft áður með eigendum sínum í helgarheimsókn á Reykhóla á föstudaginn fyrir viku og dvaldist með sínu fólki í Læknishúsinu (Hellisbraut 2). „Annað hvort hefur Eurovision farið svona öfugt í hann eða hann bara ákveðið að leika á okkur til að framlengja dvölina,“ segir Una Ólöf Gylfadóttir.
„Að minnsta kosti fannst hann hvergi innandyra að morgni sunnudags og hefur ekki enn skilað sér. Hann hefur margoft áður komið vestur og verið í lengri eða skemmri tíma. Aldrei hefur hann þó verið mikið fyrir að fara út einn, hvað þá út fyrir lóðina í kringum Hellisbraut 2, svo að það er á huldu hvort að hann rati þangað aftur. Ef þið sjáið þessu rólyndis rauðhærða tígrisdýri bregða fyrir, þá megið þið endilega láta hana mömmu Hönnu vita í síma 696 1860 eða 434 7739.“