Reykhólar: Umsvifin ættu að geta margfaldast
Þaravinnsla og afleidd starfsemi á Reykhólum ættu að geta margfaldast á næstu árum ef farið yrði út í meiri virðisaukningu í vinnslu. Þetta sagði Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, á kynningarfundi á Reykhólum í síðustu viku. Þar reifaði hann hugmyndir sínar um stofnun frumkvöðlaseturs eða tæknigarðs á Reykhólum, sem sérhæfði sig á þessu sviði. Hann varpaði fram þeirri hugmynd að setrið yrði rekið af sveitarfélaginu, Þörungaverksmiðjunni, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og e.t.v. fleirum.
Þorsteinn nefndi að það væri vilji atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að styrkja þessa starfsemi og þegar lægi fyrir í því skyni 750 þúsund króna framlag frá ráðuneytinu. Þorsteinn hét því að senda vestur drög að stofnsamningi um setrið innan tíu daga.
Á fundinum flutti Þorsteinn erindi sem hann nefndi „Nýsköpun úr náttúrugæðum“ og fjallaði þar einkum um hina verðmætu auðlind sem þarinn er. Hann ræddi um eðli hrossaþarans (laminaria digitata) og kallaði tegundina „eina mestu joðpumpu sem náttúran felur í sér“. Þorsteinn sagði að eðli þarans væri um margt bæði ráðgáta og yndi fræðimanna sem fjalla um efnið.
Þorsteinn sagði það álit sitt varðandi Þörungaverksmiðjuna hf. á Reykhólum, að þar hefði verið haldið vel á spilunum hvað varðar vottun um gæði framleiðslunnar. Það sem væri gott fyrir verksmiðjuna væri gott fyrir samfélagið á Reykhólum. Þetta gilti í báðar áttir og mikilvægt væri að samfélagið á Reykhólum og verksmiðjan væru í góðum tengslum.
Þorsteinn flutti fréttir frá Jönku Zalesakovu lækni og Jozef Carsky prófessor frá Bratislava og sýndi á tjaldi myndskeið þar sem Janka ávarpar Reykhólabúa. Þar segist hún hlakka til að vinna með þeim að því að framleiða verðmæt efni úr þaranum. Starfshópur þeirra (Bratislava-hópurinn) hefur unnið að því að draga andoxunarefni úr hrossaþara og mynda grunn að verðmætum efnum sem nýta mætti í lyfjaiðnaði, fegrunarlyfjum o.fl. Þorsteinn kynnti á fundinum nokkur efni sem unnin hefðu verið úr þaranum.
Jozef Carsky hefur borið sum af þeim efnum sem hann hefur unnið úr þaranum saman við andoxunarlyf á markaði. Þar sagði Þorsteinn að Reykhólaefnið hefði vinninginn um langtímaáhrif andoxunarinnar. Hann fjallaði um verð á andoxunarlyfjum og sýndi hversu verðmæt þaraefnin væru orðin þegar þau kæmust á það stig.
Þá er Janka þeirrar skoðunar, að kísilvatn úr jarðhitavatni frá Reykhólum gæti orðið ný tegund vatns á markaði og kísillinn í því hefði þekkta eiginleika varðandi t.d. hjarta- og æðasjúkdóma. Það hafi hátt hlutfall kísils en lágt sýrustig og þar með hafi það góða eiginleika varðandi t.d. magaheilsu.
Í framhaldi af erindi Þorsteins I. Sigfússonar flutti Sigmar B. Hauksson erindi um lykilatriðin í því sem Bratislava-hópurinn væri að vinna. Hann hefur verið sérstakur tengiliður við hópinn.
Einar Sveinn Ólafsson, forstjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. á Reykhólum, flutti erindi um starfsemi hennar. Hann lýsti í meginatriðum áhuga á hugmyndinni um frumkvöðlasetur og sagði að undirbúa þyrfti málið vel á ýmsan hátt áður en það yrði að veruleika.
Arna Lára Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Ísafirði, stiklaði á stóru um verkefnin á Vestfjörðum. Þá ræddi Steindór R. Haraldsson um starfsemi BioPol á Skagaströnd.
Hér á vefnum verður í kvöld eða á morgun í tveimur aðskildum fréttum birt samtal við Sigmar B. Hauksson og greint frá því sem kom fram hjá Einari Sveini Ólafssyni á fundinum.
Andrea Björnsdóttir oddviti Reykhólahrepps setti kynningarfundinn en Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri stjórnaði honum. Öll hreppsnefndin sat fundinn, svo og dálítill slæðingur af fólki sem kom til að fylgjast með.
► Janka Zalesakova og Jozef Carsky
► Vísindavefur Háskóla Íslands: Hvað eru andoxunarefni?
► 22.08.2012 Frumkvöðla- og tæknisetur í bígerð á Reykhólum
Halldór, mnudagur 10 desember kl: 15:23
Glæsilegt, greinilega mikið framundan á Reykhólum, spurning að fara að flytja vestur.