Reykhólaskóla slitið
Reykhólaskóla var slitið í gær við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni. „Að þessu sinni gengu sjö ungmenni upp úr grunnskólanum úr öruggu skjóli foreldra en jafnframt inn í skemmtilegasta tíma æskuáranna. Með skírteini 10. bekkinga fylgdu góðar óskir og gagnlegar upplýsingar frá Sambandi breiðfirskra kvenna um nauðsynlegustu áherslur fyrir þá sem hleypa heimdraganum", sagði Jóhanna Þorsteinsdóttir skólastjóri í ávarpi sínu við skólaslitin.
Fram kom í máli skólastjóra, að kennaraskipti hefðu orðið í vetur vegna barnsburðarleyfis Ástu Sjafnar Kristjánsdóttur og veikindaleyfis Steinunnar Rasmus en skólinn hefði notið góðra afleysinga þeirra Valdísar Einarsdóttur og Sjafnar Þór.
Skólaferðalag eldri bekkja var farið til Danmerkur, bæði til að endurgjalda Dönum heimsókn síðasta haust og einnig til að sanna sig í danskri tungu. Miðstigið fór vettvangs- og skólaferð í Alviðru og yngsta stigið skoðaði heimasveit undir leiðsögn kennara.
„Uppákomur voru líka með hefðbundnum hætti, það er að 9. bekkur dvaldi í viku í Laugum í Sælingsdal síðasta haust, Tónlist fyrir alla heimsótti okkur í október, tónlistarkennsla var í höndum Halla Reynis og fullveldishátíð undir stjórn tónlistarmannsins Gunnars Tryggvasonar frá Akureyri, en í framhaldi af veru hans gáfu nemendur út geisladisk. Danskennslu nutu nemendur hjá Jóni Pétri og síðan voru samstarfsdagar skólanna á Vesturlandi haldnir í Varmalandi í Borgarfirði og á Reykhólum. Félagsstarf skólans var í öruggum höndum Herdísar Matthíasdóttur og Rebekku Eiríksdóttur ásamt foreldrum og forráðamönnum, sem tóku að sér vaktir við félagsstarfið. Ljósmyndari heimsótti okkur svo á vormánuðum og festi á pappír nemendur og kennara skólans", sagði Jóhanna skólastjóri í ávarpi sínu.
Við skólaslitin afhenti Guðjón D. Gunnarsson (betur þekktur sem Dalli) nemendum 3. og 4. bekkjar reiðhjólahjálma að gjöf frá Rauðakrossdeildinni í Dölum og Reykhólahreppi.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við skólaslitin í gær.