Tenglar

11. nóvember 2012 |

„Reykhólasveitin hefur tekið okkur tveim höndum“

„Granni okkar í Hólaseli er sómamaðurinn Þórarinn Sveinsson bóndi í Hólum. Hann vaktar Hólasel á veturna og er góður nágranni rétt eins og aðrir í sveitinni því að Reykhólasveitin hefur tekið okkur tveim höndum.“

 

Ofanritaðar setningar eru úr bókinni Hreint út sagt, sjálfsævisögu Svavars Gestssonar fyrrv. alþingismanns og ráðherra, sem kom út fyrir helgina. Svavar og fjölskylda hans dveljast löngum í Reykhólasveit og hefur hann sagt að þar sé nánast annað heimili hans og Guðrúnar Ágústsdóttur eiginkonu hans. Hér fyrir neðan segir meira af lífi þeirra og iðju í Reykhólasveit.

 

Æsku sína og uppvöxt átti Svavar á Grund á Fellsströnd, sem nú tilheyrir Dalabyggð, þar sem foreldrar hans bjuggu. Meðal barna hans má nefna Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra.

 

Svavar Gestsson var ritstjóri Þjóðviljans um árabil og formaður Alþýðubandalagsins í allmörg ár. Hann var alþingismaður í rúma tvo áratugi og gegndi á þeim tíma ýmsum ráðherraembættum. Síðasta hluta starfsævinnar var Svavar sendiherra, fyrst í Svíþjóð og síðan í Danmörku.

 

Hreint út sagt er liðlega 400 síður. Þar fjallar höfundur um ævi sína, bæði hina persónulegu og pólitísku sögu. Um pólitíska hlutann má segja, að þar sé nánast um að ræða sögu vinstri hreyfingarinnar á Íslandi í hálfa öld.

 

 

Í kynningu JPV-bókaforlagsins segir:

 

Baráttumaðurinn Svavar Gestsson segir hér persónulega og pólitíska sögu sína, sem er samofin sögu Íslands í meira en hálfa öld. Þetta er saga stráks af venjulegu íslensku alþýðuheimili í borg og sveit.

 

Hann verður snemma vinstrisinnaður og brennandi af réttlætiskennd, síðar blaðamaður, ritstjóri, stjórnmálamaður og sendiherra. Hann segir frá pólitískri mótun sinni, hugsjónum og hugmyndum; frá fáránleika kalda stríðsins, upphafi og endalokum Alþýðubandalagsins, tilurð Reykjavíkurlistans, stofnun Samfylkingarinnar og pólitískum átökum, sigrum og ósigrum, en einnig frá fjölskyldu og samferðamönnum.

 

Stíll Svavars er hressilegur og beinskeyttur og hristir upp í lesandanum. Hann segir hér sögu sína tilgerðarlaust og af hreinskilni og greinir frá ýmsu sem ekki hefur áður sést á prenti um pólitíska viðburði síðustu áratuga, sem hann tók þátt í að móta.

 

 

Kafli úr bókinni þar sem aðstæðum í Hólaseli í Reykhólasveit er lýst:

 

Þar er víðsýnt til vesturs, sést oft á Snæfellsjökul, til vinstri í sjóndeildarhringnum eru Hafratindur, Fagridalur og Nýpur. Yfir eyjaklasana sést á húsið í Akureyjum. Á vinstri hönd til suðurs er mín sýsla, Dalasýsla, það eru Saurbær og Skarðsströnd og vel sést út á Klofning. Ég veit upp á hár hvar Grund á Fellsströnd er hinum megin við fjallið. Á hægri hönd til norðurs er Borgarlandið með álfakaupstaðinn Bjartmarsstein fremst. Á bak við Borgarlandið er Barmahlíð, „hlíðin mín fríða“, og það sér í Reykhólaþorpið undan Hríseynni.

 

Á hásumri sest sólin ofan í Vaðalfjöllin; það er sólsetur sem er gott að vaka eftir en þá er líka freistandi að vaka aðeins lengur og sjá sólina koma upp í austri. Vaðalfjöllin eru stolt sveitarinnar og aðalkennileiti.

 

Upp við land Hólasels eru hólmarnir Hesthólmi, Hnúi og Flaga. Þar verpa um eitt hundrað kollur á venjulegu sumri. Undan landinu lyfta sér sker á fjöru. Eitt köllum við Þristinn af því að það er eins og talan þrír í laginu. Þar teygja sig selir blygðunarlaust mestallt sumarið.

 

Milli Hóla og Hólasels er stundum aðhald fyrir hestana okkar og á góðum dögum teymi ég undir krökkum fram og til baka á veginum. Það er þakklát atvinna. Þar er líka gaman að horfa á hestana. Grunur minn sem er reiðhestur minn, glófextur, er eins og á málverki eftir Þórarin B. Þorláksson.

 

Víðsýnið frá Hólaseli er engu líkt; eini gallinn á veðurfari eru vindarnir. Þar getur orðið svo illhvasst af norðaustri að þar er illa stætt. En húsið er svo listilega hannað af Finni vini okkar Björgvinssyni arkitekt að alltaf er einhvers staðar skjól. Granni okkar í Hólaseli er sómamaðurinn Þórarinn Sveinsson bóndi í Hólum. Hann vaktar Hólasel á veturna og er góður nágranni rétt eins og aðrir í sveitinni því að Reykhólasveitin hefur tekið okkur tveim höndum.

 

Í Hólaseli hefur aldrei vaxið hrísla, þar er jarðvegur snauður, þar eru sumarþurrkar og þar er vindasamt á vetrum. Það er þess vegna spennandi, að ekki sé meira sagt, að klæða þetta land nýjum gróðri og það höfum við gert. Við plöntum nær eingöngu birki. Gleðin yfir hverri plöntu sem lifir og dafnar er ólýsanleg. Þetta er líf sem mér finnst stórkostlegt. Einmitt það sem mig hafði dreymt um lengi: Að búa úti á landi, að vera með hross og skrifa. Eiga stóra fjölskyldu.

 

 

Hugmynd - heimasíða Svavars Gestssonar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31