Reykskemman á Stað í Reykhólasveit - beint frá býli
Reykskemman Stað er eitt þeirra fyrirtækja sem kynnt hafa verið á mánaðarlegum súpufundum á Reykhólum í vetur. Hér hefur áður verið greint frá Gullsteini ehf. á Reykhólum sem framleiðir dýranammi úr harðfiski og þaratöflur handa mannfólki.
„Við höfum tekið þátt í nokkrum verkefnum til að koma okkur á framfæri“, segir Rebekka Eiríksdóttir á Stað. „Við erum þátttakendur í Beint frá býli og Veisla að vestan, sem eru stærstu verkefnin. Einnig höfum við tekið að okkur verkefni í samráði við Ferðafélag Íslands, meðal annars verkefni sem kallaðist Smjör drýpur af stráum í Reykhólahreppi þar sem áhersla var lögð á gamlar hefðir í matargerð og villibráð. Það verkefni var unnið í samvinnu við Eyjasiglingu og Hótel Bjarkalund“, segir hún.
Framleiðsluvörur Reykskemmunnar Stað eru hangikjöt, bjúgu, rúllupylsa og reyktur rauðmagi. Hvað hangikjötið varðar er í boði lambakjöt, sauðakjöt og veturgamalt og svokallað langreykt hangikjöt. Allar vörur bera merkimiða til að auðkenna vörurnar frá Reykskemmunni Stað.
„Til að koma vörunum á framfæri erum við með heimasíðu í gegnum verkefnið Beint frá býli, höfum farið á sveitamarkaði og svo selt ferðafólki beint af hlaðinu eða beint úr skemmunni. Líka hefur auglýsingin maður segir manni reynst okkur afar vel“, segir Rebekka.
Framtíðarsýnin hjá Staðarbændum er að koma upp betri söluaðstöðu og selja handverk samhliða.
Fjögur býli á landinu hlutu Landbúnaðarverðlaunin 2008, þar af tvö í Reykhólasveit - Staður og Árbær. Samtökin Beint frá býli og Félag ferðaþjónustubænda hlutu Landbúnaðarverðlaunin 2011.
Matarmenning og smjör á stráum í Reykhólasveit (sumarið 2009)