Tenglar

15. mars 2015 |

Ríkið bregst sveitarfélögunum í málefnum fatlaðra

Sveitarstjórn Reykhólahrepps vill að málefni fatlaðra verði áfram hjá sveitarfélögunum og að sú vinna sem lagt hefur verið upp með geti haldið áfram. Stöðugar forsendubreytingar, lægri fjárframlög og sú staðreynd að upplýsingar um fjárframlög innan árs koma seint fram, jafnvel í lok árs eins og gerðist í desember 2014, gera sveitarfélögunum ómögulegt að skipuleggja og sinna verkefnum sem þeim eru falin. Þá falla þau vinnubrögð ekki undir þær fjármálareglur sem sveitarfélögum eru settar samkvæmt lögum. Sveitarstjórn Reykhólahrepps styður því og samþykkir tillögu BSVest [Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks] um að teknar verði upp viðræður við velferðarráðuneytið um málefni fatlaðs fólk.

 

Ofanritað var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps 12. mars. Þar var lögð fram samþykkt stjórnarfundar BsVest frá 23. febrúar varðandi ósk um viðræður við velferðarráðuneytið um að ríkið taki við málaflokki fatlaðs fólks úr höndum sveitarfélaganna. Í framhaldi af henni hefur Fjórðungssamband Vestfirðinga óskað eftir viðræðum við ráðuneytið um að ríkið taki við þessum málaflokki á Vestfjörðum úr höndum sveitarfélaga, enda geti vestfirsk sveitarfélög ekki haft hann með höndum vegna fjárskorts.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur hins vegar sagt að ekki komi til greina að ríkið taki aftur við málefnum fatlaðs fólks. Enginn niðurskurður hafi verið til sveitarfélaganna vegna málaflokksins. „Það er alveg skýrt, að ríkið er ekki að fara að taka aftur við málefnum fatlaðs fólks. Sveitarfélögin hafa staðið sig mjög vel að taka yfir þennan málaflokk,“ sagði ráðherrann í viðtali í Sjónvarpinu fyrir skömmu.

 

Þjónusta við fatlað fólk var flutt frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Skylda sérhvers sveitarfélags er að sjá til þess að fatlaðir íbúar þeirra njóti þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á. Hér er um gríðarstóran málaflokk að ræða og telja sveitarfélögin að rúma þrjá milljarða vanti frá ríkinu til að hægt sé að standa undir þjónustu til fatlaðra íbúa þeirra. Öll sveitarfélögin níu innan Fjórðungssambands Vestfirðinga eru á þjónustusvæði málefna fatlaðra á Vestfjörðum.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur sagt að staðan sé vissulega alvarleg, en hann undirstrikar mikilvægi þess að málaflokkurinn sé betur kominn hjá sveitarfélögunum. Ríkið þurfi að vara sig á því að auka sífellt kröfur á sama tíma og sveitarfélögin yfirtaki þennan málaflokk.

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, sagði í samtali við RÚV fyrir stuttu, að gríðarlega mikilvægt sé að málefni fatlaðs fólks verði áfram hjá sveitarfélögunum en ekki færð aftur til ríkisins. Forgangsröðun fjármuna sé brýn og sveitarfélögin þurfi að láta valin verkefni víkja fyrir þeim lögbundnu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31