Tenglar

21. apríl 2009 |

Ríkið kosti tengingu Hvalárvirkjunar við Landsnetið

Hvalá í Ófeigsfirði. © Mats Wibe Lund.
Hvalá í Ófeigsfirði. © Mats Wibe Lund.

Forsvarsmenn Fjórðungssambands Vestfirðinga, Orkubús Vestfjarða og Ísafjarðarbæjar sendu í morgun ríkisstjórninni áskorun þess efnis, að kostnaðurinn við tengingu fyrirhugaðrar virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum við raforkuflutningskerfi Landsnets verði greiddur úr ríkissjóði. Að öðrum kosti eru litlar líkur á því að af virkjuninni verði á næstu árum. Með þessu verði komið til móts við kröfu íbúa á Vestfjörðum um að búa við öryggi í afhendingu raforku sambærilegt við aðra landshluta, auk þess sem virkjunin skapi mikilsverð tækifæri í atvinnuþróun á Vestfjörðum til lengri og skemmri tíma.

 

Áskorunin er svohljóðandi:

 

Undirritaðir beina þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar Íslands að hún beiti sér fyrir að tengigjöld Hvalárvirkjunar verði greidd úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, ríkissjóði. Forsenda þess að Hvalárvirkjun verði að veruleika á allra næstu árum er sú, að virkjunaraðilar þurfi ekki að bera tengikostnað virkjunarinnar við raforkuflutningskerfi Landsnets. Virkjun Hvalár mun skipta sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu og mannlíf á Vestfjörðum og má m.a. benda á eftirfarandi þætti.

     1. Fjöldi nýrra starfa á byggingartíma virkjunarinnar.
     2. Að lokinni byggingu virkjunarinnar og tengingu hennar við raforkuflutningskerfi Landsnets á Ísafirði verður afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum orðið ásættanlegt.
     3. Með auknu framboði á tryggri raforku opnast nýir möguleikar í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og má í því sambandi benda á gagnaver, en staðsetning þeirra á svæðum þar sem lítil hætta er á jarðskjálftum er eftirsóknarverð.

 

Undir þetta rita „með von um skjót viðbrögð" þeir Halldór Halldórsson bæjarstjóri f.h. Ísafjarðarbæjar, Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga, og Kristján Haraldsson orkubússtjóri f.h. Orkubús Vestfjarða.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31