Tenglar

19. ágúst 2015 |

Ríkið og Minjavernd styðja uppbygginguna í Ólafsdal

Samkomulagið undirritað í Ólafsdal í dag: Þröstur, Bjarni og Rögnvaldur.
Samkomulagið undirritað í Ólafsdal í dag: Þröstur, Bjarni og Rögnvaldur.
1 af 2

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra undirritaði í dag fyrir hönd ríkissjóðs samkomulag við Minjavernd um viðtöku lands og eigna í Ólafsdal í Gilsfirði, en þar stofnaði Torfi Bjarnason fyrsta íslenska búnaðarskólann árið 1880. Markmiðið með samkomulaginu er endurreisn bygginga og menningarlandslags á staðnum þar sem meðal annars er áformað að reka menningartengda ferðaþjónustu.

 

Í skólanum, sem starfræktur var til ársins 1907, var vel á annað hundrað bændaefnum kennt flest það sem til framfara stefndi í búskaparháttum, en samhliða skólanum rak Guðlaug Zakaríasdóttir kona Torfa kvennaskóla þar að sumarlagi. Áhrif Ólafsdalsskólans á íslenskan landbúnað og menntun voru því umtalsverð. Á tímum skólans reis fjöldi bygginga í Ólafsdal, þar á meðal skólahúsið, sem enn stendur, en það var byggt árið 1896. Þá voru byggð smiðja, mjólkurhús og tóvinnuhús.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Þar segir einnig m.a.:

 

Í samkomulagi ríkissjóðs við Minjavernd, sem er hlutafélag í eigu ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og sjálfseignarstofnunarinnar Minja, felst að félagið endurreisir byggingar og hefur umsjón með menningarlandslagi á svæðinu, en ríkissjóður afsalar í þessu skyni 57,5 hektara landspildu til félagsins. Frá árinu 2007 hefur sjálfseignarstofnunin Ólafsdalsfélagið unnið að uppbyggingu staðarins, en það leitaði á síðasta ári til Minjaverndar um að ganga inn í verkefnið. Heimild ráðherra liggur fyrir í fjárlögum þessa árs. Með samkomulaginu er áfram tryggð frjáls för almennings um svæðið.

 

Samkomulagið felur m.a. í sér að Minjavernd tekur að sér að endurbyggja gamla skólahúsið og önnur þau hús sem uppi standa enn að einhverju leyti svo og að endurgera þau hús sem áður stóðu þar og tengdust rekstri og starfrækslu skóla Torfa. Gerir félagið ráð fyrir að heildarkostnaður þess geti numið 400-500 m.kr.

 

Sjá nánar hér.

 

Á mynd nr. 1 undirrita Þröstur Ólafsson, formaður stjórnar Minjaverndar, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins, samkomulagið í Ólafsdal í dag. Á mynd nr. 2 er Ólafsdalur þegar þar var skólasetur í blóma. Myndin er á vef fjármálaráðuneytisins en höfundar ekki getið.

 

Sjá einnig:

Ólafsdalshátíð 2015, fjöldi mynda

► Rögnvaldur Guðmundsson á Ólafsdalshátíð 2015: Meðan feitu fé vér smölum

► María Játvarðardóttir á Ólafsdalshátíð 2015: Taktu möppuna þarna næst til vinstri

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31