Tenglar

7. desember 2014 |

Risabatteríið „Inspired by Iceland“ hunsar Vestfirði

Norðurljós í Jökulfjörðum, ein myndanna sem Haukur hefur sent. Ljósm. © Haukur Sigurðsson.
Norðurljós í Jökulfjörðum, ein myndanna sem Haukur hefur sent. Ljósm. © Haukur Sigurðsson.

Til að bregðast við gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna hérlendis hefur verið bent á tvennt í stöðunni: Annars vegar að lengja ferðamannatímabil ársins og hins vegar að dreifa ferðamönnum betur um landið svo að álagið verði ekki of mikið á Suðurlandi þar sem langflestir þeirra koma. Ísfirðingurinn Haukur Sigurðsson bendir á, að fara þurfi meira en ár aftur í tímann til að sjá minnst á Vestfirði á Facebooksíðu Inspired by Iceland.

 

Haukur hefur starfað við ferðamál um árabil og vinnur nú meðal annars við markaðsmál hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Aurora Arktika á Ísafirði. Hann segir að sig hafi lengi grunað að Vestfirðir hafi ekki notið sanngirni í markaðssetningu Íslands.

Haukur bendir á, að á Facebooksíðu Inspired by Iceland hafi á þessu ári komið sex færslur um Seljalandsfoss, fjórar um Skógafoss, fjórar um Jökulsárlón og þrjár um Reynisfjöru í Mýrdal. En engin sem snertir Vestfirði.

 

„Mér þykir ekkert sérstaklega skrýtið að öll hótel á Suðurlandinu séu alltaf stappfull með stærsta markaðsbatterí landsins á bak við sig og það er ekki eins og Suðurlandið þurfi á fleiri ferðamönnum að halda,“ segir Haukur. Hann hefur sjálfur sent myndir frá Vestfjörðum til Inspired by Iceland í þeirri von að fá þær birtar á síðunni, en án árangurs.

Inspired by Iceland er markaðsátak sem hrundið var af stað undir forystu iðnaðarráðuneytisins í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli vorið 2010. Þetta er samstarfsverkefni fjölmargra opinberra aðila og einkafyrirtækja í ferðaþjónustu og hefur gríðarlegt fjármagn verið lagt í það.

 

Nú síðast á mánudag ákvað ríkisstjórnin að veita allt að 200 milljónum króna í átakið „Ísland allt árið“ sem fer fram undir merkjum Inspired by Iceland.

 

Hugsanlega verður þá hægt að minnast þó ekki væri nema einu sinni á Vestfirði á árinu 2015. Reynslan sýnir hins vegar að búast má við að það verði ekki gert.

 

- Byggt að mestu á frétt á bb.is á Ísafirði.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31