Rjúpa í æðarhreiðri í sjávarhólma - og hænsnaveiðar
Á tuðruferð um breiðfirskar eyjar og hólma í gær fundu þeir Reykhólabúar og fuglatalningarmenn Tómas Sigurgeirsson (Tumi) og Eiríkur Kristjánsson rjúpuhreiður frammi í Landhólmum. Augljóst var að þetta er gamalt æðarhreiður sem rjúpan hefur tekið til afnota. Tumi segist aldrei fyrr hafa vitað rjúpu verpa í sjávarhólma. „Hún þarf að ná sér í flóðatöflu og sæta sjávarföllum til að trítla með ungana í land þegar þar að kemur, þetta er ekki stór hólmi,“ segir hann.
Rjúpan var sallaróleg á hreiðrinu þrátt fyrir heimsóknina - lét sér vel líka að henni væri strokið eins og sjá má á einni myndanna sem þeir Eiríkur og Tumi tóku.
Hænsnaveiðar
Í fyrradag sást til þeirra Eiríks og Tuma á harðaspretti með háf í grennd við Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð á Reykhólum. Ókunnugir giskuðu á að hér væru á ferð fiðrildaveiðimenn eða hundafangarar hins opinbera en svo var ekki: Háfurinn var lundaháfur en ekki hundaháfur eða fiðrildaháfur og menn þessir voru á hænsnaveiðum. Hænur búsettar í Barmahlíð sluppu og þess vegna var kallað í tvo af þremur helstu fuglasérfræðingum þorpsins enda þeim best treystandi til að þekkja hænur frá öðrum fuglum í héraðinu (væntanlega hefur ekki náðst í Jón Atla úr því að hann var ekki líka).
„Lundatíminn er ekki byrjaður, það er ágætt að æfa sig á hænum á meðan,“ segir Tumi.
Á síðustu myndinni er Gunnar Tryggvason að fylgjast með bústofninum í Barmahlíð.
► 24.02.2012 Gáfu Reykhólaskóla eggjasafn, mjög gamalt að stofni
► 18.01.2012 Svartfugli fjölgar stöðugt með hverju ári
► 13.01.2009 Óhemjumikið af fugli á svæðinu í grennd við Reykhóla
► 14.07.2008 Tumi bóndi á Reykhólum og leyndarmál branduglunnar