Tenglar

23. maí 2016 |

Róttækar breytingar á umhverfi Barmahlíðar

Hafnar eru framkvæmdir á lóð Dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum, allt upp undir gatnamótin við Hólabúð. Ætlunin er að gera þar gönguleiðir með áningarsvæðum þar sem hægt verður að tylla sér niður í góðu veðri til skrafs og ráðagerða. „Hugmyndavinna var að stærstum hluta unnin á Barmahlíð af starfsfólki og íbúum heimilisins, ásamt vel þegnum ábendingum frá fólki hér á Reykhólum,“ segir Hjalti Hafþórsson, umsjónarmaður fasteigna Reykhólahrepps.

 

Hjalti segir að vonandi verði hægt að klára gönguleiðir í sumar og koma niður fallegum gróðri. Síðast en ekki síst verði lagður mikill metnaður í að endurskapa Birnulund, verk Birnu E. Norðdahl heitinnar, skákmeistara og frumkvöðuls í kvennaskák hérlendis.

 

„Til að útfæra hugmyndirnar og sjóngera myndirnar af framkvæmdunun fékk ég til liðs við mig Jón Steinar Ragnarsson, sem er þekktur fyrir fallegar og vel útfærðar hugmyndir. Hans verk er núna að skila sér til okkar í þeim verkefnum sem fyrir liggja.“

 

Á síðustu myndinni er uppdráttur af svæðinu. Fyrri myndirnar fjórar eru tölvuteikningar af því sem fyrirhugað er að gera, þó að sumt muni vissulega bíða betri tíma. Þar á meðal eru þrjú lítil sambyggð hús skammt frá suðvesturhorni Barmahlíðar. Þau eru sett inn sem viðmið ef þjónustuíbúðir verða byggðar á komandi árum, þannig að núna er þar aðeins um frátekið pláss að ræða.

 

Vestan við Birnulund, skammt frá norðvesturhorni Barmahlíðar, má sjá tvö græn hús í burstabæjarstíl. Annars vegar er þar um að ræða hænsnakofann sem núna er sunnan við Barmahlíð. Hins vegar er þar svolítið fjárhús, nokkru stærra en hænsnakofinn, sem er ein af hugmyndum starfsfólks og heimilisfólks í Barmahlíð. Þarna gæti fólkið sér til ánægju og bæði andlegrar og líkamlegrar heilsubótar sinnt um nokkrar kindur, auk hænsnanna.

 

Á uppdrættinum sést líka gróðurhús við suðurgafl Barmahlíðar, sem núna er reyndar búið að ákveða að breyta bæði hvað stærð og útlit varðar.

 

Í horninu við gatnamótin sunnan við Hólabúð verður útbúið svolítið torg. Þangað verður minnismerkið um Jón Thoroddsen skáld og sýslumann frá Reykhólum flutt, en fyrir tíu árum var því komið fyrir í hallanum milli Barmahlíðar og kirkjugarðsins. Ferhyrndi reiturinn með undarlegu táknunum við götuna neðan við Barmahlíð að norðvestanverðu (neðan við hænsnahúsið) sýnir hvar útbúinn verður áningarstaður.

 

Tölvuteikningarnar og uppdrátturinn tala sínu máli.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31