Rúllupylsukeppnin haldin í Sævangi
Sauðfjársetur á Ströndum og Slow Food samtökin á Íslandi halda Íslandsmeistaramót í rúllupylsugerð í Sauðfjársetrinu á Ströndum (Sævangi, 12 km sunnan við Hólmavík) núna á laugardaginn kl. 13. Þetta er í annað skiptið sem keppnin er haldin. Fyrir ári var hún í Króksfjarðarnesi og fékk þá Strandafólkið Matthías Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir í Húsavík verðlaun fyrir léttreykta rúllupylsu. Þau fengu líka önnur verðlaun fyrir ávaxtafyllta rúllupylsu. Sérstaka viðurkenningu fékk rúllupylsa frá Sverri Kristjánssyni og Heiðrúnu Sigurðardóttur í Reykjanesbæ.
Rúllupylsuuppskriftir þekkjast úr fornum og nýjum uppskriftabókum en líklegt er að margar og margvíslegar uppskriftir séu til á heimilum landsmanna hver annarri betri.
Keppnisreglur:
- Þátttakendur mega koma með eins margar gerðir af rúllupylsum og þeir vilja.
- Þátttakendur bjóða gestum að smakka á rúllupylsunum.
- Dómnefnd valinkunnra matgæðinga og smakkara mun leggja dóm á lykt, áferð, bragð, framsetningu og frumleika.
- Viðurkenningar verða veittar fyrir þrjú fyrstu sætin og einnig aukaverðlaun fyrir frumleika.
Þeim sem ekki eiga heimangengt með sínar rúllupylsur er bent á að þær má senda á Sauðfjársetrið og starfsmenn þess taka að sér að sjá um framsetningu og kynningu. Gott er að tilkynna þátttöku hjá Ester í síma 823 3324 eða í netfangið www.saudfjarsetur@strandir.is en ekki nauðsynlegt.
Sjá hér um keppnina í Króksfjarðarnesi í fyrra (fjöldi mynda):
► 02.12.2012 Verður nú vart aftur snúið