Tenglar

6. ágúst 2012 |

SEEDS-liðarnir sungu lag Reykhóladaganna

SEEDS-liðarnir taka þátt í því að syngja lag Reykhóladaga. Sjá nöfn og þjóðerni í meginmáli. Ljósm. Sveinn Ragnarsson.
SEEDS-liðarnir taka þátt í því að syngja lag Reykhóladaga. Sjá nöfn og þjóðerni í meginmáli. Ljósm. Sveinn Ragnarsson.
1 af 3

Tólf sjálfboðaliðar á vegum SEEDS-samtakanna á aldrinum 18-35 ára voru við ýmis störf á Reykhólum dagana 18.-31. júlí en seinni vikuna bættist sá þrettándi við á vegum Markaðsstofu Vestfjarða. Verkefnin sem hópurinn fékk voru mörg og fjölbreytt - endalaust að raka saman grasi, taka til, snyrta í þorpinu, mála, taka niður girðingu, búa til skreytingar, hengja upp skreytingar og taka niður aftur, undirbúa Reykhóladaga og ganga síðan frá eftir hátíðina.

 

Hlutverk hópsins á kvöldskemmtun Reykhóladaga var að sjá um að koma matnum fram og ganga síðan frá. Skemmtilegasta verkefnið þar var hins vegar að syngja með þegar lag Reykhóladaganna var flutt. Þetta var endapunktur kvöldsins og mannskapurinn stóð sig vel þó að ekki sé kannski auðvelt fyrir útlendinga að syngja á íslensku. Reyndar var búið að taka nokkrar æfingar með stelpunum (Elínborgu, Sigurdísi, Margréti, Elísabetu og Hörpu).

 

„Það er mikil upplifun að hafa svona fjölbreyttan hóp. Öllum kom svo vel saman, allir svo kátir og hressir allan tímann. Alveg sama hvað ég setti í hendurnar á heim, aldrei kvörtuðu þau heldur kláruðu það sem fyrir lá. Eins og með þaravöllinn, það þurfti að henda þaranum inn á völlinn, klippa alla stöngla af og dreifa honum síðan um völlinn, þetta fannst þeim skemmtileg lífsreynsla,“ segir Harpa Eiríksdóttir ferðamálafulltrúi, sem annaðist verkstjórn og var með hópnum allan tímann.

 

„Ég man vel þegar ég rétti þeim rúlluplast, benti á stóru rörin sem voru notuð í sundlaugarfjörinu og sagði þeim að plasta þau inn. Svipurinn á sumum var ansi fyndinn fyrst en síðan drifu þau sig í þetta og árangurinn sást alveg á sunnudeginum,“ segir hún.

 

„Við áttum síðan skemmtilegar stundir saman á sunnudagskvöld og mánudagskvöld þar sem við spjölluðum um hvernig þetta hefði verið fyrir þau. Það var mikið hlegið, þau voru sammála um að tíminn hér hefði ekki getað verið skemmtilegri - mikil vinna en ávinningurinn var æðislegur. Það var aldrei langt í hláturinn hjá okkur allan tímann. Þau voru frábær og Reykhóladagarnir hefðu ekki verið eins án þeirra.“

 

Harpa vill þakka heimafólki í Reykhólahreppi sem tók hópnum svo frábærlega, sem og gestum Reykhóladaga sem lét þeim öllum líða svo vel á hátíðinni.

 

„Þetta var æðislegur rússíbani sem ég myndi endurtaka ef mér gæfist kostur á því.“

 

Á mynd nr. 1 er lag Reykhóladaganna sungið saman í lok kvöldskemmtunarinnar í íþróttahúsinu. Við hljóðnemana standa höfundar lagsins og vinkonur þeirra, f.v. Elínborg og Sigurdís Egilsdætur, Margrét Björnsdóttir, Elísabet Valdimarsdóttir og Hrefna Jónsdóttir.

 

Fyrir framan sitja f.v. Carmen frá Spáni, Mireia frá Spáni, Louis frá Frakklandi, Stéphanie frá Belgíu, Katerina frá Tékklandi, Jannica frá Finnlandi, Alfredo frá Spáni, Harpa frá Stað, Sarah frá Þýskalandi, Kathleen frá Þýskalandi, Olivier frá Frakklandi, Mojca frá Slóveníu (sjálfboðaliði á vegum Markaðsstofu Vestfjarða), Carlos frá Spáni og loks hópstjórinn Agnese frá Lettlandi.

 

Sjá einnig - já, íslenskum ungmennum gefst líka kostur á svona ferðum út um alla Evrópu:

 SEEDS-ungmennaskipti - langar þig í skemmtilega dvöl í útlöndum?

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30