SEEDS - langar þig í skemmtilega dvöl í útlöndum?
Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS kynna spennandi verkefni erlendis fyrir ungt fólk um alla Evrópu í samstarfi við Ungmennaáætlun Evrópusambandsins. Þátttakendur fá mestan hluta ferðakostnaðar endurgreiddan, aldrei minna en 70%, auk þess sem þeim er séð fyrir fæði, húsnæði og skoðunarferðum meðan á verkefnunum stendur. Skemmtilegur hópur á vegum SEEDS var að störfum í Reykhólahreppi seinni hluta júlímánaðar og kvaddi með þátttöku í Reykhóladögum. Íslensk ungmenni eiga líka kost á því að komast í ævintýri af því tagi erlendis.
Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS voru stofnuð árið 2005. Hérlendis taka þau á móti erlendum sjálfboðaliðum til að sinna fjölþættum verkefnum á sviði umhverfis- og menningarmála. SEEDS skipuleggur vinnubúðir um allt land í samstarfi við einstaklinga, félagasamtök og sveitarfélög.
Vinnubúðirnar standa allajafna í tvær vikur á hverjum stað, oftast með þátttöku 8-12 sjálfboðaliða, og hafa verkefnin hérlendis verið mjög fjölbreytt. Þau hafa meðal annars falið í sér hreinsun strandlengjunnar á Langanesi, í Arnarfirði, á Reykjanesskaga og í Viðey, gróðursetningu í Dýrafirði og í Bláfjöllum, lagningu og viðhaldi stíga í Vatnajökulsþjóðgarði, Þórsmörk og Fjarðabyggð, aðstoð við hátíðir og menningarviðburði víðs vegar um landið - já, Reykhóladagar! - viðhald minja og fornleifa og torfvinnu, svo eitthvað sé nefnt. Þá tóku hópar frá SEEDS þátt í hreinsunarstarfi eftir eldgosið í Eyjafjallajökli.
Sjá nánar: