Sækist eftir þriðja sætinu
Hafdís Gunnarsdóttir gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi sem haldið verður 3. september og sækist eftir 3. sæti á listanum. „Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram er að ég sé ótal tækifæri til að efla svæðin í þessum víðferma kjördæmi og vil með þessum hætti ganga beint til verka.“
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Hafdís sendi Reykhólavefnum til birtingar. Þar segir ennfremur:
„Ég tók nýverið við starfi forstöðumanns liðveislu hjá Ísafjarðarbæ, en hef síðastliðin þrjú ár gegnt starfi ráðgjafa hjá barnavernd á norðanverðum Vestfjörðum. Þar áður vann ég sem kennari frá árinu 2004.
Ég hef verið virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum í Ísafjarðarbæ í mörg ár og gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Ég er formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Sjálfstæðisflokksins.
Ég er 36 ára gömul, gift Shiran Þórissyni fjármálastjóra og eigum við tvo syni. Ég er fædd og uppalin á Ísafirði en bjó í Reykjavík á árunum 2000-2004 á meðan ég nam iðnrekstrarfræði við Tækniháskóla Íslands. Að því loknu flutti ég aftur til Ísafjarðar og lagði stund á fjarnám frá Háskólanum á Akureyri. Ég útskrifaðist þaðan árið 2008 með B.Ed. í grunnskólakennarafræði. Mér finnst það vera forréttindi að búa með fjölskylduna mína úti á landi og er tilbúin til að vinna fyrir kjördæmið mitt.“