Sækja þarf um leyfi fyrir brennu og flugeldasýningu
Þeir sem hafa í hyggju að hlaða bálkesti til þess að kveikja í þeim á gamlárskvöld eða á þrettándanum, eða ætla að sækja um leyfi til sölu flugelda og til flugeldasýninga yfir hátíðarnar, skulu sækja um slík leyfi fyrir 6. desember. Vegna umsóknar um brennu, flugeldasýningu eða sölu flugelda skal tilgreina lögráða ábyrgðarmann og leggja fram vottorð frá vátryggingafélagi um ábyrgðartryggingu. Með umsókn um stóra brennu (sjá neðar) og sölu flugelda skal fylgja skriflegt starfsleyfi heilbrigðiseftirlits.
Þetta kemur fram í tilk. frá lögreglustjóranum á Vestfjörðum, Kristínu Völundardóttur.
Umsóknareyðublöð og reglur um bálkesti og brennur, flugeldasýningar og sölu á flugeldum liggja frammi hjá sýslumönnum og jafnframt á vef lögreglunnar á Vestfjörðum.
Leyfisgjöld eru þessi:
- Brennuleyfi kr. 5.500
- Skoteldasýning kr. 5.500
- Sala skotelda kr. 3.300
Þegar Reykhólavefurinn spurðist fyrir um það hjá embætti lögreglustjóra, í ljósi þess að í Reykhólahreppi er margt sveitabýla, hvort eða að hvaða leyti leyfisskylda þessi gildi um brennur við sveitabæi, voru svörin á þessa leið:
Í 1. tölulið leiðbeininga sem ríkislögreglustjóri, Hollustuvernd ríkisins og Brunamálastofnun ríkisins hafa útbúið segir m.a.: „Gildissvið. Leiðbeiningar þessar eiga við um allt land. Þær gilda um alla bálkesti og brennur, hvort sem þær eru á vegum einka- eða opinberra aðila, þar sem fólk safnast saman sér til skemmtunar ..."
Þá segir í 2. tl. [sbr. innganginn varðandi starfsleyfi heilbrigðiseftirlits]: „Átt er við stóra brennu þegar bálköstur verður stærri en 100 fermetrar eða 450 rúmmetrar og ætla má að brennutími sbr. skýringar í 7. gr. vari í allt að 4 klst. Við litla brennu er átt þegar bálköstur nær ekki þessari stærð og brennutími er áætlaður 2 klst."
Umsókn skal skilað inn til lögreglustjóra og embættið leggur mat á hvort þörf sé á leyfi í hvert sinn. Nánari uppl. veitir Harpa Oddbjörnsdóttir hjá embætti lögreglustjóra í síma 450 3700.