Tenglar

11. mars 2016 |

Sæmundarhúsið: Lóa fékk Lóa og Jóa til smíðanna

Sæmundarhúsið 9. mars 2016.
Sæmundarhúsið 9. mars 2016.
1 af 11

Vinnu smiða og annarra iðnaðarmanna í Sæmundarhúsinu á Reykhólum (Hellisbraut 14) miðar vel. Halldóra Játvarðardóttir (Lóa á Miðjanesi) keypti þetta gamalkunna hús af Norðursalti í byrjun júní á síðasta ári og hyggst flytjast þangað þegar verkinu lýkur einhvern tímann með vorinu. „Barnabörnin spyrja nú hvað ég ætli að gera á Reykhólum, þeim finnst það einhvern veginn ekki passa,“ segir hún.

 

Norðursalt keypti Sæmundarhúsið undir árslok 2013 og hugðist nota það fyrir starfsfólk. Ekki varð af því, og var húsið sett á sölu rúmu ári seinna. Þá var ytra byrðið frágengið og búið að rífa allt innan úr húsinu. „Það var eiginlega ekkert nema útveggirnir,“ segir Lóa.

 

Tveir smiðir byrjuðu að vinna í húsinu núna seinni hlutann í nóvember. Þeir hafa unnið í því nánast sleitulaust síðan, auk rafvirkja, pípara og málara sem hafa komið við sögu.

 

Sæmundarhúsið er timburhús á timburgrind, hæð og ris, en ekki með kjallara. Reyndar var nokkurra fermetra geymslupláss undir húsinu og gengið í það niður úr gólfinu, en því hefur nú verið lokað.

 

Til verksins fékk Lóa Lóa og Jóa, eins og þeir eru kallaðir í daglegu tali. Þetta eru húsasmiðirnir Ólafur Ingimundarson (Lói), sem búsettur er á Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum, og Jóhann Lárus Jónsson (Jói), sem búsettur er á Hólmavík. Jói er systursonur Guðjóns D. Gunnarssonar (Dalla) sem ótalmargir þekkja, en hann er búsettur að Hellisbraut 18, skammt frá Sæmundarhúsinu.

 

Lóa er ekki lengur með neinn búskap sjálf á Miðjanesi. „Ég á eina tík og þar með er það upptalið. Ég hætti með kindurnar haustið 2014.“

 

Gústaf Jökull Ólafsson, systursonur Lóu, og Herdís Erna Matthíasdóttir frá Hamarlandi keyptu Miðjanes af Lóu í fyrravor. Þau eru búsett á Reykhólum en hafa lengi verið með kúabú á Miðjanesi og farið á milli, enda er það ekki nema um fimm kílómetra leið.

 

Sæmundarhúsið var byggt árið 1952, fjórum-fimm árum síðar en Prestshúsið neðan við Hellishólana og um tveimur áratugum eftir að Læknishúsið næst þar fyrir utan var byggt (sjá mynd nr. 8). Þau eru bæði steinsteypt.

 

Húsið er kennt við Sæmund Björnsson, starfsmann Tilraunastöðvarinnar á Reykhólum, sem lét byggja það og bjó þar síðan, líklega fram til um 1960. Áðurnefndur Dalli giskar á að smiðurinn hafi verið Stefán Guðlaugsson.

 

Sæmundur Björnsson (1912-2006) var sonur Björns Björnssonar og Ástríðar Brandsdóttur, búenda í Hólum í Reykhólasveit (innsta bænum í Reykhólahreppi hinum gamla áður en Geiradalshreppur tók við). Sæmundur var yngstur tíu systkina, en meðal þeirra voru Björn á Hríshóli, Valgerður í Hnífsdal og Finnbogi í Kirkjubæ.

 

Væntanlega verður Sæmundar lengst minnst fyrir ritið Tröllatunguætt sem hann tók saman að stærstum hluta. Það er niðjatal Hjálmars Þorsteinssonar (1742/1743-1819) prests í Tröllatungu við Steingrímsfjörð, áður aðstoðarprests á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit, og konu hans Margrétar Jónsdóttur (1748-1817).

 

Sæmundur var með verslun í einu herbergi í húsi sínu á Reykhólum. Hann var brautryðjandi í nútíma garðrækt hérlendis, eins og garðurinn við húsið vitnar. Síðar bjó í Sæmundarhúsinu annar garðyrkjumaður og miklu lengur. Það var Guðmundur H. Benediktsson (Gúndi), sem fluttist á Reykhóla árið 1983 og átti heima í þessu húsi til dauðadags árið 2009. Hann klæddi tvær hliðar hússins með timburklæðningu og byggði bílskúrinn sem og gróðurhúsið neðst í garðinum (sjá meðfylgjandi myndir). Ekki hefur verið búið í Sæmundarhúsinu síðan Gúndi dó.

 

Á milli Sæmundar og Guðmundar áttu heima í þessu húsi a.m.k. Páll Finnbogi Jónsson (Nabbi), bróðir Magnúsar á Seljanesi, og síðar Jóhanna Jóhannesdóttir frá Bæjum á Snæfjallaströnd, ekkja Haraldar á Kletti í Kollafirði og tengdamóðir Reinhards Reynissonar frá Hríshóli í Reykhólasveit. Vel má vera að fleiri hafi búið þarna í millitíðinni.

 

 

Varðandi myndirnar sem hér fylgja:

 

Myndir nr. 1-5 voru teknar í fyrradag, 9. mars. Þá var Lói reyndar ekki á svæðinu.

 

Mynd nr. 6 tók María Maack líffræðingur á Reykhólum 20. janúar og birti á Facebooksíðu sinni með þessum texta:

Lóuhús, nágranni minn í norður. [...] Myndin var tekin í janúar þegar fokið hafði ærlega í skafla en einhvern veginn tók þetta eina tré að sér að skýla öðrum fyrir strengnum sem liggur við húshornið.

 

Myndir nr. 7-9 (loftmyndirnar) tók Árni Geirsson verkfræðingur (Ráðgjafastofan Alta) snemma í október 2010.

 

Viðbót:

Þessi mynd hefði mátt fylgja fréttinni af Sæmundarhúsinu, sagði Unnsteinn Hjálmar Ólafsson (Hjalli á Grund), þegar hann sendi vefnum myndina af blaðinu sem hér hefur verið bætt við (mynd nr. 11). Jafnframt er mynd nr. 10 tekin upp af þessu blaði ein og sér og sett hér inn.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31