Tenglar

9. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Sæmundarhúsið á Reykhólum gert í stand

Sæmundarhúsið, garðurinn og gróðurhúsið. Allar myndirnar eru frá Árna Geirssyni. Sjá meginmál.
Sæmundarhúsið, garðurinn og gróðurhúsið. Allar myndirnar eru frá Árna Geirssyni. Sjá meginmál.
1 af 3

Norðursalt (Garðar og Søren) keypti í vetur húsið að Hellisbraut 14 á Reykhólum, betur þekkt sem Sæmundarhúsið. Ætlunin er að halda áfram því verki sem byrjað var, að rífa innan úr húsinu og gera það upp og nota síðan sem íbúðarhús fyrir starfsfólk saltvinnslunnar. „Þetta er gamalt hús og ekki í mjög góðu standi,“ segir Søren. „Mjög frábrugðið öllum öðrum húsum í þorpinu. Við ætlum að leyfa anda þess að njóta sín.“

 

Mikill og fjölbreyttur gróður er í garðinum við Sæmundarhúsið (sjá myndirnar) en er kominn í dálitla órækt. Þar ætla þeir saltfélagar að taka til hendinni. „Það er ekki bara gaman að vera með fallegan trjágarð og blómagarð heldur er það líka gott upp á skjólið,“ segir Søren Rosenkilde.

 

Það eru hæg heimatökin hjá Søren að hanna breytingarnar og endurbæturnar á Sæmundarhúsinu því að hann er arkitekt að mennt. „Ég lærði fyrst markaðsfræði og vann í þeirri grein í Þýskalandi en lét svo æskudrauminn að verða arkitekt rætast. Og svo eru konan mín og konan hans Garðars líka arkitektar!“ segir hann.

 

„Rauði þráðurinn í hugmyndum okkar um húsið er að láta það njóta sín sem best í þessu umhverfi sem garðurinn er, að slíta ekki rætur þess,“ segir Garðar.

 

Þeir félagar segja að ytra byrði hússins verði ekki breytt þó að margt verði gert inni. Hins vegar sé ætlunin að inni í húsinu verði hægt að sjá hvernig það var byggt. „Hér má sjá að ekki hefur verið of mikið til af timbri og farið hefur verið sparlega með það. Það verður skemmtilegt að láta sjást hérna inni hvernig húsið var byggt,“ segir Søren.

 

Ris Sæmundarhússins er gott og með nokkrum herbergjum. Kjallarinn er hins vegar aðeins nokkurra fermetra geymslupláss.

 

Sæmundarhúsið var byggt rétt eftir 1950. Það er kennt við Sæmund Björnsson, starfsmann Tilraunastöðvarinnar á Reykhólum, sem lét byggja það og bjó þar síðan, líklega fram til um 1960. Þetta er timburhús á timburgrind og einangrað með asbesti eins og tíðkaðist um þær mundir. Líka var þakið einangrað með þeim hætti en það mun ekki hafa verið algengt. Guðjón D. Gunnarsson (Dalli) á Reykhólum giskar á að smiðurinn hafi verið Stefán Guðlaugsson.

 

Sæmundur Björnsson (1912-2006) var sonur Björns Björnssonar og Ástríðar Brandsdóttur búenda í Hólum í Reykhólasveit (innsta bænum í Reykhólahreppi hinum gamla áður en Geiradalshreppur tók við). Sæmundur var yngstur tíu systkina, en meðal þeirra voru Björn á Hríshóli, Valgerður í Hnífsdal og Finnbogi í Kirkjubæ.

 

Væntanlega verður Sæmundar lengst minnst fyrir ritið Tröllatunguætt sem hann tók saman að stærstum hluta. Það er niðjatal Hjálmars Þorsteinssonar (1742/1743-1819) prests í Tröllatungu við Steingrímsfjörð, áður aðstoðarprests á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit, og konu hans Margrétar Jónsdóttur (1748-1817).

 

Sæmundur var með verslun í einu herbergi í húsi sínu á Reykhólum. Hann var brautryðjandi í nútíma garðrækt hérlendis eins og garðurinn við húsið vitnar. Síðar bjó í Sæmundarhúsinu annar garðyrkjumaður og miklu lengur. Það var Guðmundur H. Benediktsson (Gúndi), sem fluttist á Reykhóla árið 1983 og átti heima í þessu húsi til dauðadags árið 2009. Hann klæddi tvær hliðar hússins með timburklæðningu og byggði bílskúrinn sem og gróðurhúsið sem er neðst í garðinum (sjá meðfylgjandi myndir). Ekki hefur verið búið í Sæmundarhúsinu síðan Gúndi dó.

 

Á milli Sæmundar og Guðmundar áttu heima í þessu húsi a.m.k. Páll Finnbogi Jónsson (Nabbi), bróðir Magnúsar á Seljanesi, og síðar Jóhanna Jóhannesdóttir frá Bæjum á Snæfjallaströnd. Vel má vera að fleiri hafi búið þarna í millitíðinni.

 

E.t.v. væri ekki ófróðlegt fyrir þá sem áhuga hafa á gamla tímanum að smella á tenglana hér fyrir neðan og athuga hvort þeir sjái Sæmundarhúsið risið á einhverri af myndunum.

 

Fólk sem getur látið í té frekari upplýsingar um sögu Sæmundarhússins eða leiðrétt eitthvað sem hér hefur komið fram eftir fátæklegri vitneskju og fátæklegu minni er beðið að skrifa í athugasemdakerfið hér fyrir neðan. Eins má hafa samband við umsjónarmann vefjarins (vefstjori@reykholar.is og 892 2240).

 

Myndirnar sem hér fylgja eru af ljósmyndavef Árna Geirssonar sem finna má í valmyndinni vinstra megin - Ljósmyndir, myndasöfnÝmis myndasöfnÁrni Geirsson. Þar er að finna mikinn fjölda mynda frá Reykhólahreppi og yfir héraðinu mörg undanfarin ár. Á mynd nr. 2 má efst fyrir miðju sjá Prestshúsið og Læknishúsið á Reykhólum, sem vera munu mjög lítillega eldri en Sæmundarhúsið.

 

Fjöldi gamalla Reykhólamynda

► Gamlar myndir - óskað eftir upplýsingum

 

Athugasemdir

Guðjón D, Gunnarsson, fimmtudagur 09 janar kl: 13:31

Ánægjulegt að heyra að Sæmundarhúsið lifni við, með sínu útliti.
Smá misskilningur með asbestið. Húsið er klætt utan með asbesti og báruasbest á þaki. Undir asbestinu á veggjum er tjörupappi, svo einangrað með dagblöðum og klætt að innan með trétexi að sögn Steinars Pálmasonar. Veit ekki um einangrun í þaki.

jon ingi magnusson, fimmtudagur 09 janar kl: 18:38

Gott hús enda fæddist eg þar :)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31