Tenglar

26. nóvember 2012 |

„Sættum okkur ekki við þessar trakteringar“

Gott veður á Hjallahálsi. Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.
Gott veður á Hjallahálsi. Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.

„Vegagerðin fullvissar okkur um það að veðrið verði gott næstu tvær vikurnar. Ég veit ekki hvaða veðurspámenn þeir eru í sambandi við því það vita það allir að veðrið á Vestfjörðum kemur ekki eftir pöntun,“ sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, í fréttum RÚV í dag. Hún hefur mótmælt því bæði við Vegagerð og innanríkisráðuneyti að ferjan Baldur skuli hafa verið tekin úr Breiðafjarðarsiglingunum fyrirvaralaust og sett í Vestmannaeyjasiglingar.

 

Ásthildur segir að ekkert samráð hafi verið haft við bæjarstjóra fyrir vestan um að taka Baldur þaðan. Um það hafi einfaldlega komið tilkynning í gær. Hún hafði strax samband við vegamálastjóra og sagði að þetta kæmi ekki til greina. „Þetta er okkar ferja og samningurinn er gerður um Breiðafjarðarsiglingar en ekki siglingar milli lands og Eyja.“

 

Einkum yfir veturinn er Breiðafjarðarferjan Baldur þjóðvegurinn milli suðursvæðis Vestfjarða og Suðvesturlands miklu frekar en leiðin uppi á meginlandinu. Af áratugalöngum umræðum og ekki síst síðari árin ætti flestum landsmönnum að vera kunnugt um „þjóðveginn“ um Gufudalssveit og ástand hans - vetur, sumar, vor og haust.

 

Ekki síður er Baldur lífæð Flateyjar í Reykhólahreppi mikinn hluta ársins því að Eyjasigling á Reykhólum er ekki í ferðum þangað nema yfir sumartímann. Auk þess er Súlan hans Björns Samúelssonar hjá Eyjasiglingu aðeins farþegabátur og getur ekki flutt bíla, hvað þá fiskflutningabíla og aðra flutningabíla sem þjónusta suðursvæði Vestfjarða.

 

Ásthildur segir að fyrirtækin á suðursvæðinu treysti á Baldur til daglegra flutninga með fisk suður og með aðrar vörur.

 

 „Við erum búin að láta samgönguyfirvöld og innanríkisráðherra vita að við sættum okkur ekki við þessar trakteringar. Við höfum gert kröfu um sólarhringsþjónustu á vegunum og aðstoð við flutningabíla sem eru á ferðinni því það kemur nú oft upp að þeir komist hreinlega ekki upp Hálsana þegar hálkan er mikil,“ sagði Ásthildur í fréttum RÚV.

 

Samkvæmt upplýsingakorti Vegagerðarinnar er hálka alla leið frá Hvammsfirði í Dölum og vestur á Patreksfjörð. Þar á meðal á leiðinni um Hálsana í Reykhólahreppi, sem eru flutningabílum mjög erfiðir við slíkar aðstæður.

 

Meira að segja í góða veðrinu sem Vegagerðin ábyrgist næstu vikurnar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31