Safna undirskriftum fyrir Vestfjarðaveg
Tæplega 2000 manns hafa skrifað á undirskriftarlista þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að standa við vegabætur á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit, frá Bjarkalundi til Flókalundar. Farið er fram á að framkvæmdirnar verði boðnar út um leið og framkvæmdaleyfi liggur fyrir en matsskýrsla Vegagerðarinnar fyrir framkvæmdina er nú í matsferli hjá Skipulagsstofnun.
Mikil óánægja hefur verið með niðurskurð til vegabóta á Vestfjörðum en ekki hefur verið tekið frá fjármagn fyrir framkvæmdunum á Vestfjarðarvegi 60 um Gufudalssveit og skorið niður til framkvæmda á Dynjandisheiði.
Í áskorun undirskriftarsöfnunarinnar segir að mikið sé í húfi, að byggð á sunnanverðum Vestfjörðum eigi allt sitt undir því að helsta lífæð samfélaganna til höfuðborgarsvæðisins byggist á heilsársvegi í ætt við aðra helstu þjóðvegi landsins. Á veginum séu hins vegar fjallvegir um Ódrjúgsháls og Hjallaháls sem séu með hættulegri fjallvegum landsins og farartálmar.
Af ruv.is