Tenglar

18. mars 2014 | vefstjori@reykholar.is

Saga Barðstrendingafélagsins rakin á sjötugsafmælinu

Jóhanna Fríða Dalkvist, Ólína Kristín Jónsdóttir og Magnús Kr. Þórsson.
Jóhanna Fríða Dalkvist, Ólína Kristín Jónsdóttir og Magnús Kr. Þórsson.

Stærstu verkefni Barðstrendingafélagins er óhætt að telja byggingu og rekstur hótelanna Bjarkalundar og Flókalundar. Strax á fyrsta hausti félagsins kom það til umræðu, en það var Gísli Jónsson, þáverandi þingmaður Barðastrandarsýslu, sem kom því á framfæri við stjórnina hvort ekki væri verðugt verkefni fyrir félagið að reisa gisti- og veitingaskála í Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu. Gísli lagði ekki bara hugmyndina til heldur lagði hann fram 20 þúsund krónur til byrjunarframkvæmda, tíu þúsund til skálabyggingar að Kinnarstöðum og tíu þúsund til byggingar á Brjánslæk. Þetta varð höfuðviðfangsefni félagsins í nærri 30 ár.

 

Ofanritað er brot úr söguágripi Barðstrendingafélagsins, sem formaðurinn Ólína Kristín Jónsdóttir flutti í 70 ára afmælisfagnaði þess núna á laugardagskvöldið, á afmælisdaginn 15. mars.

 

Upphaf ágripsins er á þessa leið:

 

Ágætu samkomugestir. Til hamingju með daginn. Það er með stolti sem ég rek sögu og störf Barðstrendingafélagsins í nokkrum orðum. Ég get ekki sleppt því að minnast Vikars Davíðssonar og Ólafs A. Jónssonar, sem báðir hafa tekið efni saman og ég gat því leitað í viskubrunn þeirra, sem varðveittur er á prenti.

 

Rétt er að byrja á upphafinu, en það var fyrir sléttum 70 árum, að kvöldi 15. mars 1944, sem stofnfundur Barðstrendingafélagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu. Deilur innan Breiðfirðingafélagsins munu hafa átt verulegan þátt í að félagið var stofnað á þessum tíma. Ekki voru allir á eitt sáttir um áform Breiðfirðinga að fara í framkvæmdir í Reykjavík, til dæmis að kaupa og reka félagsheimili og veitingahús. Var það tilgangur átthagafélags? Hópur fólks sagði því skilið við Breiðfirðingafélagið og fór að skoða stofnun átthagafélags sem næði yfir báðar Barðastrandarsýslurnar. Það varð til þess að stofnfundur „brottfluttra úr Barðastrandarsýslu“ var haldinn. Stofnfélagar voru 192. Þegar mest lét voru félagar nærri 600 en þeim hefur heldur fækkað.

 

Á meðfylgjandi mynd, sem Jóhann Magnús Hafliðason tók í afmælisfagnaðinum, er Ólína Kristín í miðjunni ásamt Jóhönnu Fríðu Dalkvist veislustjóra og Magnúsi Kr. Þórssyni eiginmanni sínum.

 

Söguágripið í heild, sem raunar má telja öllu meira en ágrip, er að finna hér.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30