Tenglar

29. apríl 2015 |

Saga pikkuð inn með annarri hendinni

„Það vantar stafrænt röntgen í Búðardal,“ segir Halla Sigríður Steinólfsdóttir í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, einn af næstu grönnum Reykhólahrepps sunnan Gilsfjarðar, í ákalli til fólksins í Dalabyggð og Reykhólahreppi (og allra sem fara þar um). Ákall þetta birtir hún á Facebook-síðu sinni, en eins og kunnugt er heyrir Reykhólahreppur undir heilsugæsluna í Búðardal. Halla rökstyður þetta og útlistar í pistli sínum, sem við leyfum okkur að birta hér í heild. Jafnframt segir hún alveg nýja sögu úr eigin reynslubanka af því hvernig sauðfé getur verið stórhættulegt! Áfram skrifar Halla:

 

Svoleiðis dót kostar 2,4 milljónir með uppsetningu og nú þegar hefur safnast 1,7 milljón. Það er innan við þúsundkall á haus sem eftir er. Legg ég nú til að við tökum saman höndum og klárum þetta!! Og nú kemur svolítil saga, skrifuð með annarri hendinni, hin til stuðnings:

 

Sauðfé er stórhættulegt! Ég varð fyrir því að gemsi, borinn fallegu lambi, styggur og hræddur, stökk á hendina mína fyrir ofan úlnlið, og þar sem ég ætlaði að stöðva hana var ég búin að spenna einhverja vöðva. Við þetta gaf sig eitthvað, og það var vont. Því fór ég til myndatöku á heilsugæslunni í Búðardal (já, með bílstjóra). Þar er ágætis röntgenapparat sem dugar vel og hægt að setja stafrænt júnit við, en það kostar þetta.

 

Það voru teknar fimm myndir, en þótt það sé góður læknir í Búðardal, þá er hann ekki röntgenlæknir, og þarf því að senda myndirnar suður til að lesa úr þeim. Það sáust þó á þeim mín fallegu bein, óbrotin. Framköllunarvélin framkallar í myrkraherbergi með framköllunarvökvum og tilheyrandi, sem var fínt dót árið sem ég fæddist. Það tekur TVO daga að láta lesa úr þeim. (Ef þetta hefði verið alvarlegt, þá er auðvitað ekki beðið og sjúklingar sendir á Akranes).

 

Með stafrænu er hægt að senda myndirnar með einu klikki á tölvunni og með öðru klikki fá niðurstöður.

 

Ég get beðið. Ég er heppin. En mér er ofboðið að hugsa til þess, að við sem búum hérna búum við þá mismunun að þurfa langar leiðir til viðgerða sem hægt væri að gera hér heima. Það getur vel verið að það eigi að skaffa þessi tæki og tilbiðja einhverja gæja (heilbrigðiskerfið) um að láta nú milljón í þetta eða hitt sem þeir svo reikna út að borgi sig ekki því það vanti mýkri stól undir rassgatið á þeim.

 

Nei, gerum þetta bara sjálf. Skora hér með á ykkur. 1000 kall á söfnunarreikninginn hérna fyrir neðan, allir í heimabankann og merkið Röntgen. Takk. Þetta er fyrir OKKUR.

 

0312-13-110023

Kt. 530586-2359

 

ÞAÐ VANTAR STAFRÆNT RÖNTGEN Í BÚÐARDAL!

 

- Þessu mætti nú alveg deila hingað og þangað ...

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30