Saga sem aldrei hefur verið sögð áður
Fyrir nokkru er komið út fyrsta bindið af riti Sverris Jakobssonar prófessors um breiðfirska sögu og ber það heitið Saga Breiðfirðinga I. Fólk og rými frá landnámi til plágunnar miklu. Á kápu segir, að í bókinni ráði sú sýn að byggðir við fjörðinn myndi heild og eins að Breiðafjörður hafi sérstöðu meðal héraða á Íslandi hvað varðar stjórnmál, menningu og atvinnuhætti. „Þar hefur sjórinn verið þjóðbraut fremur en farartálmi, samnefnari og tenging fremur en sundrandi afl.“
Rit þetta er afrakstur margra ára rannsókna Sverris, sem er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Eins og ráða má af undirtitli fjallar þetta fyrsta bindi um sögu Breiðfirðinga frá landnámi og fram um 1400. Annað bindið mun spanna tímabilið fram yfir 1700 en í þriðja bindi verður fjallað um tímabilið fram til 1960.
Bindin þrjú eru hluti af stærra rannsóknarverkefni sem nefnist Saga Breiðafjarðar og var styrkt af Rannsóknasjóði 2011-2013.
Útgefandi ritverksins er Háskólaútgáfan. Í kynningu segir m.a.:
Þegar Ari fróði settist við skriftir á fyrri hluta 12. aldar beindist áhugi hans sérstaklega að Breiðfirðingum, hans eigin forfeðrum, hlutdeild þeirra í landnáminu og forystu í málefnum héraðsins. Síðan þá hafa Breiðfirðingar alltaf verið í lykilhlutverki í sagnaritun Íslendinga. [...] Hér segir frá höfðingjum og lærdómsmönnum eins og Ara en einnig bændum, konum, húskörlum og ambáttum, pólitískri sögu þeirra, lífsháttum og afkomu. Útkoman er saga sem aldrei hefur verið sögð áður.
Nefna mætti í framhaldi af því sem hér segir um forfeður Ara fróða, að forfeður Sverris Jakobssonar í báðar ættir bjuggu í Breiðafirði á 19. öld.
Hægt er að kaupa bókina hér á vef Forlagsins.
Sjá einnig: