Saltararnir á kaupstefnum í Þýskalandi
Eins og hér kom fram á sínum tíma fóru „saltararnir“ á Reykhólum, þeir Garðar Stefánsson og Søren Rosenkilde, á Grænu vikuna (Grüne Woche) í Berlín, en henni lauk núna um helgina. „Þetta var rosalega gaman og virkilega ánægjulegur tími. Fjölmargir Þjóðverjar og aðrir gæddu sér á saltinu og nánast allt selt. Margir vilja kaupa saltið og dreifa því, ekki aðeins í Þýskalandi heldur líka í Eistlandi, Noregi, Bandaríkjunum og fleiri löndum,“ segir Garðar.
Græna vikan í Berlín er helguð matvælum, landbúnaði og garðyrkju og á heimasíðu hennar segir að hún sé sú stærsta í heiminum sinnar tegundar. Næst á dagskránni hjá þeim félögum er að fara með saltið sitt á kaupstefnuna BIOFACH2014 í Nürnberg í Suður-Þýskalandi núna um miðjan febrúar. Þar fá einungiss lífrænar eða vistvænar vörur aðgang.
Myndirnar frá Grænu vikunni í Berlín sem hér fylgja eru ásamt mörgum fleiri á bloggi Norður & Co.