Tenglar

18. mars 2015 |

Saltkjöt og bókmenntir hjá Lions

Hjónin Ingibjörg og Magnús.
Hjónin Ingibjörg og Magnús.
1 af 2

Saltkjöts- og bókmenntakvöldið árvissa hjá Lionsdeildinni í Reykhólahreppi verður í borðsal Reykhólaskóla núna á föstudagskvöld, 20. mars. Að þessu sinni er samkoman helguð Magnúsi Sigurðssyni frá Kinnarstöðum, síðast bónda í Hólum í Reykhólasveit. Rakinn verður æviferill Magnúsar og flutt nokkur af kvæðum hans og lausavísum. Veislustjóri verður Svavar Gestsson í Hólaseli, fyrrum þingmaður og ráðherra.

 

Tilhögun öll verður með sama hætti og venjulega. Fólk sem hyggst sitja veisluna er beðið að hafa samband við Ingvar Samúelsson í síma 898 7783 sem fyrst. Samkomur þessar eru ekki einskorðaðar við Lionsfólk heldur eru þær öllum opnar og hafa alltaf verið. Húsið verður opnað kl. 20 en veislan hefst kl. 20.30.

 

Magnús Sigurðsson, sem kvöldið er tileinkað, fæddist í Múla í Þorskafirði árið 1907, sonur Sigurðar Sigurðssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur búenda þar. Þegar Magnús var á fyrsta ári veiktist móðir hans og fór drengurinn í fóstur að Kinnarstöðum til Ingibjargar Einarsdóttur og Magnúsar Sigurðssonar, föðurbróður síns og alnafna. Þar ólst hann síðan upp til fullorðinsára.

 

Árið 1928 (í vikunni þegar mórinn var reiddur heim á Kinnarstöðum) gekk Magnús að eiga jafnöldru sína, Ingibjörgu Pálsdóttur frá Berufirði. Þau eignuðust átta börn og komust sjö til fullorðinsára, meðal þeirra Dísa á Mávavatni, Kristján í Gautsdal og Steinunn á Kinnarstöðum.

 

Lífsbaráttan hjá ungu hjónunum fátæku og barnmörgu var erfið. Fyrstu níu ár sambúðarinnar hröktust þau milli staða í héraðinu, ýmist í húsmennsku eða tvíbýli. Þar kom þó árið 1937 að þau keyptu Hóla, innstu jörðina í Reykhólahreppi hinum eldra, og höfðu þar með tryggt sér jarðnæði. En Magnús varð ekki gamall maður. Haustið 1939 veiktist hann af berklum og andaðist á Vífilsstaðaspítala sumarið eftir, rétt orðinn þrjátíu og þriggja ára. Ingibjörg bjó áfram í Hólum næstu tvo áratugina en keypti síðan jörðina Gautsdal ásamt Kristjáni syni sínum. Hún lést árið 1973.

 

Magnús Sigurðsson orti mikið á sinni stuttu ævi. Árið 1992 tóku afkomendur hans og ættfólk saman ljóð og stökur eftir hann og gáfu út ljóðabókina Glóey. Þar er að finna kvæði af ýmsu tagi, ljóðabréf, hestavísur, minningarljóð; hann yrkir um börnin og til konunnar og um vorkomuna, sumarið og fuglana. Líka er mikið af lausavísum í bókinni.

 

Glóey er gamalt sólarheiti. Hér fer á eftir samnefnt ljóð eftir Magnús Sigurðsson, sem Lionskvöldið að þessu sinni er helgað.

 

 

Glóey

 

Himnasólin bjarta, blíða,

brosir milt á gluggunum.

Hún er skærsta ljósið lýða,

ljós, er eyðir skuggunum.

 

Brosmild vermir blómið smáa,

bræðir niður klakahjúp.

Roðar gulli hnjúka háa,

himingeim og sjávardjúp.

 

Þú ert valdið æðsta af öllu,

eldheit drottning þessa lands.

Dýrðarljós frá himinhöllu,

helgiboði frelsarans.

 

Athugasemdir

Magnús S. Gunnarsson, fstudagur 20 mars kl: 16:06

Fallegt framtak af Lionsklúbbnum og fleirum að heiðra og helga minningu afa míns.

Magnús Sigurðsson Gunnarsson.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31