Saltkjöts- og ljóðaveislan á Reykhólum
Jóhannes Haukur Hauksson mjólkurfræðingur í Búðardal verður skáld hinnar árvissu saltkjötsveislu og skáldakynningar Lionsdeildarinnar í Reykhólahreppi að þessu sinni. Veislan verður í borðsal Reykhólaskóla föstudagskvöldið 7. mars og verður með sama sniði og venjulega. Allir eru velkomnir, ekki bara Lionsfólk.
„Ég var orðinn nokkuð fullorðinn þegar ég byrjaði að yrkja fyrir alvöru,“ segir Jóhannes Haukur. „Þegar ég gekk í Lionsklúbbinn hérna í Búðardal má segja að ég hafi fengið vettvang til að láta að mér kveða á skemmtifundum og við önnur tækifæri. Svo hef ég nú nokkrum sinnum komið fram á samkomum hjá ykkur á Reykhólum.“
Jóhannes Haukur hefur einnig komið fram á hagyrðingamótum, nú síðast á Laugum í Sælingsdal. Líka hefur hann komið fram á þorrablótum og hjá félagasamtökum sem hann hefur verið í eða sem hafa fengið hann til að troða upp.
Fólk sem hyggst koma í veisluna og gamanið er beðið að hafa sem fyrst samband við Ingvar Samúelsson í síma 898 7783 og panta sæti.
Myndina sem hér fylgir tók Þórarinn Ólafsson á sameiginlegum fundi Lionsklúbbs Búðardals og Lionsdeildarinnar í Reykhólahreppi í Bjarkalundi haustið 2011.