Tenglar

6. nóvember 2014 | vefstjori@reykholar.is

Saltverksmiðjan á Reykhólum hlýtur Vitann 2014

1 af 2

Saltverksmiðja Norður & Co á Reykhólum hlýtur viðurkenningu Morgunblaðsins, Vitann 2014, á Vestfjörðum. Fyrirtækið framleiðir flögusalt á umhverfisvænan hátt fyrir neytendamarkað. Það hefur skapað ný störf og nýtir affallsvatn sem áður fór til spillis. Rúmt ár er síðan framleiðslan hófst, en undir hana var byggt 540 fermetra stálgrindarhús við höfnina á Reykhólum. Starfsemin útheimtir núna sjö störf; fjögur á staðnum, tvö í Reykjavík og eitt í Danmörku. Ekki er ólíklegt að starfsmönnum eigi eftir að fjölga þegar fram líða stundir, segir í Mbl. í dag.

 

Rúmlega tveggja mánaða ferðalagi blaðamanna Morgunblaðsins um landið, þar sem sjónum var einkum beint að vaxtarbroddum í atvinnulífinu, lauk í síðustu viku. Eins og kynnt var í upphafi ferðar ákvað blaðið að veita einu fyrirtæki í hverjum landshluta og einu á landsvísu sérstaka viðurkenningu í ferðalok fyrir að skapa ný störf og tekjur eða forsendur sem ný atvinnutækifæri geta byggst á. Á landsvísu hlýtur skipasmíðastöðin Rafnar í Kópavogi viðurkenningu blaðsins.

 

Um saltverksmiðju Norður & Co á Reykhólum segir einnig í blaðinu:

 

Hugmyndir um saltvinnslu úr sjónum við Reykhóla eru ekki nýjar af nálinni. Nefnd á vegum Danakonungs stakk upp á því fyrir 250 árum að hafin yrði saltvinnsla á staðnum. Vegna hafnleysis gekk það ekki, en í staðinn hófst saltvinnsla í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og stóð hún í tvo áratugi. Nú eru aðstæður breyttar, komin ágæt höfn og á staðnum er hin öfluga Þörungavinnsla sem nýja saltverksmiðjan fær affallsvatn frá. Að auki nýtir hún heitt vatn beint úr borholu. Framleiðslan er rekin undir nafninu Norðursalt.

 

Auk flögusaltsins eru uppi áform um fleiri vörur, svo sem fiskisósu. Hugmyndin að saltverksmiðjunni er komin frá frumkvöðlunum Garðari Stefánssyni framkvæmdastjóra og skólabróður hans frá Árósum, Søren Rosenkilde. Öflugur stuðningur frá nýsköpunarsjóðum og stuðningsneti þeirra hefur gert þeim kleift að hrinda hugmyndinni sem kviknaði í námi þeirra í framkvæmd.

 

Meðan unnið var að greinaflokki Morgunblaðsins um vaxtarbrodda atvinnulífsins bárust ábendingar um tugi fyrirtækja um land allt sem ástæða væri til að veita athygli, segir í blaðinu. Þar eru síðan nefnd fyrirtæki í hverjum landshluta sem oft hafi verið bent á án þess að tækifæri gæfist til að fjalla um þau að þessu sinni í greinaflokknum. Upptalningin á slíkum fyrirtækjum á Vestfjörðum er þessi:

  • Strandaber sem nýtir aðalbláber tínd í Strandasýslu. Berin eru pressuð og nýtt í safa og hratið er nýtt sem hráefni fyrir búst eða þurrkað sem millimál.
  • Vélsmiðjan Logi sem sinnir almennum skipa- og vélaviðgerðum á Patreksfirði.
  • Gullsteinn á Reykhólum sem er að þróa og sérhæfa sig í framleiðslu á lífrænum þara og þangi í formi fæðubótarefnis.
  • Arna í Bolungarvík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31