Tenglar

16. júní 2013 | vefstjori@reykholar.is

Sama hvaða dag maður byrjar, alltaf eitthvert basl!

Gústaf Jökull og vélin gera sláttarhlé.
Gústaf Jökull og vélin gera sláttarhlé.
1 af 3

Gústaf Jökull Ólafsson á Reykhólum byrjaði í gærmorgun slátt á ættarjörð sinni, landnámsjörðinni Miðjanesi, þar sem hann rekur kúabú ásamt fjölskyldu sinni. Aðspurður hvort hann byrji alltaf á laugardegi segir hann: „Það var nú sagt að maður ætti að byrja á laugardegi. Ég hef byrjað á laugardögum og líka á einhverjum öðrum dögum og það er alltaf eitthvert basl,“ segir hann og hlær.

 

„Það er eins og það sé alveg sama hvaða dag maður byrjar. Samt er þetta með laugardaginn einhvern veginn alltaf í huganum. Núna fannst mér heldur langt að bíða viku í viðbót því að grasið var farið að leggjast.“

 

Gústaf Jökull reiknar svo með því að rúlla það sem slegið hefur verið á morgun, 17. júní.

 

Hann segir að sprettan sé alveg þokkaleg miðað við þennan tíma. „Þessi tún sem ég er að slá núna og eru orðin vel sprottin, þau hafa náttúrlega verið friðuð, það hefur ekkert fé gengið á þeim. Það munar auðvitað miklu hvort túnin hafa verið friðuð eða hvort það er eins og hjá flestum sauðfjárbændum sem beita túnin á vorin.“

 

Vel má vera að fleiri bændur í Reykhólahreppi hafi byrjað slátt í gær eða hafi jafnvel verið byrjaðir áður. Gaman væri að fá tíðindi af slíku hér í athugasemdunum ef svo er.

 

Svo er slátturinn hjá öðrum en bændum allt annar handleggur. Húsagarðar á Reykhólum hafa verið slegnir og Steinar í Álftalandi var einnig við slátt í gærmorgun. Þá var hann að slá grasflötina við gistiheimilið og fyrir framan hreppsskrifstofuna (mynd nr. 3) - í annað skipti á þessu vori.

 

Athugasemdir

Þrymur Sveinsson, sunnudagur 16 jn kl: 14:21

Beneficium lénsjörð Flateyjarkirkju frá miðöldum. Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1497 þar sem Ingveldur Helgadóttir gefur með sér klaustrinu á Helgafelli jörðina Miðjanes, tólf hundruð fyrir tólf kúgildi. Við siðskiptin hafa eignir klaustursins verið brotnar upp og Miðjanes fallið undir kirkjuna í Flatey. Bréfið gefur til kynna breytingu á eignarhaldi Miðjaness sem hélst allt fram á miðja síðustu öld. Heimilisfólk á Miðjanesi mátti ráða hvort það sótti messu að Stað eða á Reykhólum.

Hlynur Þór Magnússon, sunnudagur 16 jn kl: 14:51

Fengur að þessu, sagnfróði Þrymur frá Miðhúsum í Reykhólasveit. Leyfi mér að nefna rithátt eins orðs hjá þér, rithátt sem mér líkar vel: Þú skrifar siðskipti en ekki siðaskipti eins og unglingar ýmsir (jafnvel með háskólapróf í sagnfræði) hafa gert síðustu öldina eða svo. Minni í því samhengi á rit dr. Páls Eggerts Ólasonar prófessors: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar (ekki siðaskiptaaldarinnar). Skipt var um sið, ekki siði. Siður í þessari merkingu er allt annað en siðir. Til samanburðar: Ég skipti um húfu, ég skipti ekki um húfur, skipti um peysu, ekki peysur, skipti um skoðun, ekki skoðanir.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31