Tenglar

6. september 2016 |

Samantektir og myndir frá skákmótinu á Reykhólum

Birna E. Norðdahl, dótturdóttir Birnu heitinnar, lék fyrsta leikinn fyrir Hrund Hauksdóttur gegn Hannesi Hlífari.
Birna E. Norðdahl, dótturdóttir Birnu heitinnar, lék fyrsta leikinn fyrir Hrund Hauksdóttur gegn Hannesi Hlífari.
1 af 6

Minningarmót Birnu E. Norðdahl sem haldið var á Reykhólum laugardaginn 20. ágúst tókst með ágætum, enda vel staðið bæði að skipulagningu og framkvæmd. Keppendur voru 37 eða mun fleiri en upphafsmenn mótsins hefði grunað í fyrstu. Meðal þeirra var íslenska kvennalandsliðið eins og það leggur sig, auk nokkurra kvenna sem tefldu með Birnu heitinni á Ólympíumótum á sínum tíma. Einnig þrír stórmeistarar karla og allmargir aðrir landsþekktir og öflugir skákmenn. Nokkur hópur heimafólks á öllum aldri tók þátt í mótinu. Skákstjóri var Björn Ívar Karlsson, landsliðseinvaldur kvenna.

 

Tefldar voru átta umferðir eftir Monradkerfi og má sjá endanlega röð á mynd nr. 6. Ástæða þess að fólk með jafnmarga vinninga raðast misjafnlega er sú, að raðað er eftir vinningafjölda andstæðinganna. Af skákmönnum með jafnmarga vinninga raðast þannig sá ofar (hlýtur fleiri stig) sem teflt hafði við andstæðinga sem enduðu með fleiri vinninga.

 

Greint frá mótinu í ýmsum miðlum en þó mest á vef Skákfélagsins Hróksins og á mbl.is. Hér má sjá ítarlega frásögn mbl.is að móti loknu og þar fylgja mun fleiri myndir. Margt fleira varðandi mótið og undirbúning þess og sögu Birnu E. Norðdahl er að finna á vef Hróksins, en allar myndirnar eru frá félaginu.

 

Skákfrömuðurinn landsþekkti Hrafn Jökulsson (Skákfélagið Hrókurinn) bar hitann og þungann af undirbúningi mótsins, en framkvæmdin hefði aldrei tekist eins vel og raun bar vitni nema vegna hins mikla áhuga og ötula starfs og liðsinnis heimafólks. Þar skal ekki síst nefna konurnar í Kvenfélaginu Kötlu og ungmennin í Vinnuskóla Reykhólahrepps, svo og Ásu í Hólabúð, sem annaðist matreiðsluna á hátíðarkvöldverðinum að móti loknu.

 

Daginn eftir (sunnudag) tók kvennalandsliðið skákæfingu á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum til undirbúnings fyrir Ólympíumótið sem núna stendur yfir í Bakú við Svartahaf. Þess má einnig geta, að landsliðskonurnar brugðu sér í ökuferð á nokkrum af forntraktorunum á Grund, en slíkt mun vera nýmæli í undirbúningi íslenskra landsliða fyrir Ólympíumót.

 

Mörg fyrirtæki lögðu mótshaldinu lið með afsláttum og fyrirgreiðslu af ýmsu tagi, en varðandi verðlaunafé og útlagðan kostnað munaði langmest um framlög Reykhólahrepps og Þörungaverksmiðjunnar.

 

Sjá einnig: Meistarar tefla í minningu Birnu (mbl.is 16. ágúst 2016).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31