Tenglar

15. mars 2015 |

Sameiginleg stefna um sjálfbæra þróun

Sveitarfélögin innan Fjórðungssambands Vestfirðinga hafa samþykkt að marka þá stefnu að sérgreina sig sem umhverfisvænt og sjálfbært samfélag, þar sem áhersla er lögð á að vernda sögu, minjar og landslag fyrir komandi framtíð. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa í auknum mæli stuðlað að sjálfbærni og horft meira til náttúru- og landverndar og eru með því að hvetja fyrirtæki, íbúa og opinberar stofnanir á svæðinu til að feta sömu braut. Myndi það hafa jákvæð áhrif á markaðssetningu hvers konar afurða er koma frá svæðinu.

 

Í samræmi við þetta hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum, Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð, sett sér sameiginlega stefnu um sjálfbæra þróun með sérstaka áherslu á umhverfisvæna ferðaþjónustu, sem og umhverfisáherslur í öðrum atvinnuvegum á svæðinu.

 

Sveitarfélögin innan Fjórðungssambands Vestfirðinga leitast við að fylgja ákvæðum alþjóðlegra samþykkta og innlendra áætlana um umhverfismál, auk þess sem tekið er mið af öllum öðrum lögum, reglugerðum, samningum og öðrum samþykktum sem varða þá þætti sem stefnan nær til, svo og siðareglum Alþjóða ferðamálastofnunarinnar (UNWTO).

 

Sveitarfélögin innan Fjórðungssambands Vestfirðinga beita fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir rýrnun náttúrulegra og félagslegra auðlinda, og hvetja aðra aðila og einstaklinga til að fylgja því fordæmi og bæta frammistöðu sína í málefnum sjálfbærrar þróunar, sérstaklega með tilliti til ferðaþjónustunnar.

 

Sveitarfélögin innan Fjórðungssambands Vestfirðinga hafa einsett sér að:

  1. Vinna að stöðugum úrbótum á eigin frammistöðu í umhverfislegu, efnahagslegu og félagslegu tilliti, með hliðsjón af viðmiðunarskýrslum EarthCheck fyrir svæðið.
  2. Láta vinnuafl, vörur og þjónustu af svæðinu njóta forgangs að því marki sem mögulegt er, þannig að sveitarfélögin hafi ávallt í forgrunni að kaupa vörur og þjónustu í heimabyggð ef kostur er á.
  3. Starfa í anda samfélagslegrar ábyrgðar (CSR – Corporate Social Responsibility) og eiga þátt í að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, þar sem haft er að leiðarljósi að vinna að eflingu samfélagsins, samþætta samfélags- og umhverfismál og hafa þau sjónarmið að leiðarljósi í samskiptum við hagsmunaaðila.

 

Sveitarfélögin innan Fjórðungssambands Vestfirðinga halda uppi samskiptum við alla hagsmunaaðila til að tryggja samræmdar aðferðir við að ná framúrskarandi árangri í umhverfis- og félagsmálum. Skilvirk miðlun upplýsinga í formi ársskýrslu er liður í þessum samskiptum, svo og opið samráð við alla hagsmunaaðila varðandi starf sveitarfélaganna að sjálfbærri þróun.

 

Sveitarfélögin innan Fjórðungssambandsins vinna sameiginlega og hvert í sínu lagi að uppbyggingu og eftirfylgni langtímaáætlunar um sjálfbæra þróun, Staðardagskrár 21, í samræmi við samþykktir Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992.

 

– Sveitarstjórn Reykhólahrepps staðfesti ofanritað á fundi sínum 12. mars.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30