Sameining sveitarfélaga verði ekki lögþvinguð
„Í þeirri djúpu efnahagslægð sem við Íslendingar erum að upplifa um þessar mundir hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að ríki og sveitarfélög hafi gott samráð og samskipti sín í milli", sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, við setningu 23. landsþings sambandsins í gær. Greint var frá því að teknir hafa verið upp reglulegir samráðsfundir fulltrúa sambandsins og ráðuneytis sveitarstjórnarmála, þar sem farið er yfir þau mál sem skipta mestu fyrir sveitarfélögin við núverandi aðstæður.
Þrátt fyrir þá erfiðleika sem landsmenn glíma við segist Halldór vera bjartsýnn fyrir hönd sveitarfélaganna.
„Þau hafa brugðist við ástandinu af festu. Það kemur fram í fjárhagsáætlunum fyrir þetta ár. Það liggur fyrir að sveitarfélögin hafa sýnt að þau eru mjög ábyrg þegar kemur að þætti þeirra í efnahagsstjórnuninni. Það verður erfitt verkefni en algjörlega nauðsynlegt að fylgja fjárhagsáætlunum eftir af þunga, þannig að reksturinn verði í samræmi við áætlanir. Það er vanþakklátt starf en mjög mikilvægt með heildarhagsmuni í huga", sagði Halldór í ávarpi sínu.
Eitt af þeim málum sem rædd voru á þinginu var hugmynd ráðherra sveitarstjórnarmála, Kristjáns L. Möller, að lögfesta lágmarksstærð sveitarfélaga við eitt þúsund íbúa.
„Hann hefur ítrekað kallað eftir afstöðu sambandsins til þessarar hugmyndar og hef ég alltaf vísað til þess að á landsþinginu á Akureyri 2006 var ákveðið að mæla með frjálsum sameiningum sveitarfélaga en ekki lögþvinguðum og einbeita sér frekar að verkefnaflutningi frá ríki til sveitarfélaga. Þannig væri ekki beðið eftir frekari sameiningum heldur yrðu verkefni flutt og sveitarfélög yrðu þá að sameinast um þau verkefni með því skipulagi sem þau teldu hentugast á hverju svæði. Á því landsþingi eins og fleirum var lögð fram tillaga um lágmarksíbúatölu sveitarfélaga. Tillagan árið 2006 var 500 til 1.500 íbúar en hún var felld eins og svipaðar tillögur á fyrri landsþingum", sagði Halldór.