Tenglar

16. mars 2016 |

Samfélagið á Reykhólum á líf sitt undir stjórnvöldum

Klóþang (ascophyllum nodosum).
Klóþang (ascophyllum nodosum).

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, og Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum, áttu á mánudag fundi með þingmönnum NV-kjördæmis og kynntu þeim sjónarmið sveitarfélagsins og verksmiðjunnar gagnvart fyrirhugaðri löggjöf um nytjar þangs og þara. Jafnframt því sem þau reifuðu málin afhentu þau þingmönnunum umsagnir sínar og sveitarstjórnarinnar varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögum og reglugerð, auk umsagnar Fjórðungssambands Vestfirðinga.

 

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrsti þingmaður kjördæmisins, kom þessum fundum á samkvæmt sérstakri ósk Finns. Á klukkustundarlöngum fundi hittu þau Finnur og Ingibjörg Birna fimm af þingmönnum kjördæmisins, auk Gunnars Braga þau Elsu Láru Arnardóttur, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, Harald Benediktsson og Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Þennan fund sat einnig Gauti Geirsson, aðstoðarmaður Gunnars Braga. Lilja Rafney Magnúsdóttir hafði orðið veðurteppt en sendi kveðju sína og þeir Ásmundur Einar Daðason og Einar K. Guðfinnsson voru uppteknir á þessum tíma. Ásmundur Einar sendi kveðju en Einar K. hitti þau Ingibjörgu Birnu og Finn á hálftímalöngum einkafundi á öðrum tíma.

 

Finnur kynnti þingmönnunum Þörungaverksmiðjuna og vinnsluna sem þar fer fram, svæðið í Breiðafirði þar sem þangs og þara er aflað, sjálfbærniviðmið verksmiðjunnar, vottanir og fleira.

 

Ingibjörg Birna fór yfir drög að breyttum lögum um fiskveiðistjórnun og reglugerð sem er í vinnslu í ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar og mikilvægi þess að í þeirri vinnu sé gætt byggðasjónarmiða og hefðarsjónarmiða. Jafnframt lét hún í ljós efasemdir um að vinnsla á sjávargróðri eigi yfirleitt heima í fiskveiðistjórnunarlögum. Einnig lagði hún áherslu á mikilvægi þess að unnið verði að skipulagningu strandsvæða eins og gert var í Arnarfirði og ætlunin er að ríkisvaldið noti sem fyrirmynd og komi í framkvæmd í samvinnu við sveitarfélög.

 

Þau Finnur og Ingibjörg Birna lögðu á það áherslu, að ekki verði hlaupið í gönur með lagasetningu áður en rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar og nýtingarþoli sjávargróðurs hafa átt sér stað. Meðal annars minntu þau á, að þangbreiður Breiðafjarðar eru uppeldisstöð fiskistofna eins og þorsks.

 

Jafnframt lögðu þau mikla áherslu á þá staðreynd, að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Alþingi hafa framtíð Þörungaverksmiðjunnar og þar með Reykhólaþorps í hendi sér. Þess vegna sé lífsnauðsynlegt fyrir bæði verksmiðjuna og byggðina á Reykhólum að þingið og ráðuneytið vandi til verka. Eða eins og segir í umsögn sveitarstjórnar Reykhólahrepps til ráðuneytisins þann 1. mars:

 

Samfélagið sem byggst hefur kringum Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum stendur og fellur með þeim ákvörðunum sem teknar verða í þessum efnum í ráðuneytinu og á Alþingi.

 

„Mér fundust þetta góðir fundir, það var mjög vel tekið á móti okkur, málefnum okkar og stöðu var sýndur mikill áhugi,“ segir Ingibjörg Birna sveitarstjóri.

 

„Þetta er mjög flókið mál og viðkvæmt og snýst ekki bara um lögfræði og þang eða þara í Breiðafirði, heldur um auðlindir og stýringu og sjálfbæra nýtingu. Þetta eru byggðamál, umhverfismál og hagsmunamál margra,“ segir Finnur Árnason. Hann telur að erfitt verði að breyta núverandi lögum svo að gagn verði að varðandi nýtingu sjávargróðurs. Rétt sé að skoða samningu nýrra laga.

 

Sjá einnig: Reynslan af þang- og þaratekju sniðgengin

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31