Tenglar

17. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Samfélagið nánara en í stærri plássum

Finnur Árnason horfir út yfir Breiðafjörð í skammdegisgrámanum. Ljósm. hþm.
Finnur Árnason horfir út yfir Breiðafjörð í skammdegisgrámanum. Ljósm. hþm.
1 af 2

„Mér hefur verið mjög vel tekið, mér finnst fólk hér alúðlegt og hlýtt og sýna áhuga bæði á verksmiðjunni og mér, alls ekki neitt áhugaleysi eða hlutleysi,“ segir Finnur Árnason, sem tekinn er við starfi framkvæmdastjóra Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Þau Finnur og María H. Maack eiginkona hans hafa alltaf haft áhuga á því að búa úti á landi og reynt fyrir sér bæði á Sauðárkróki og Húsavík auk viðkomu í Ólafsvík eitt sumar. Þar var María útibússtjóri hjá Hafró en Finnur háseti á togara. „Þegar ég sá starfið hérna á Reykhólum auglýst hafði ég áhuga og sótti strax um og var svo heppinn að fá það,“ segir hann.

 

„Við hjónin komum hingað í héraðið fyrir mörgum árum að sumri til á ferðalagi með krakkana okkar. Svolítið hefur snjóað yfir minninguna en við munum samt vel eftir náttúrufegurðinni – og sundlauginni.“ Þau hjónin skruppu svo vestur núna fyrir skömmu til þess að skoða staðhætti og aðstæður.

 

„Auðvitað er náttúran mjög sérstök, þetta er ákaflega fallegt hérað. En það kom okkur þægilega á óvart hvað verksmiðjan er í góðu standi og hvernig hún er í sókn. Hér er uppbyggingarferli, það er hugur í starfsfólkinu, það hefur áhuga og trú á verkefninu. Auðvitað er mjög hvetjandi fyrir mig að koma og vinna með svona hópi. Þá finnst mér áhugavert að vinna við að nýta endurnýjanlegar náttúruauðlindir eins og hér er gert, bæði sjávargróður og jarðhita, og framleiða afurðir til útflutnings. Bæjarfélagið er ósköp snoturt og ekki spillir í okkar huga að það er mjög vel búið að framkvæmdastjóra með húsnæði. Þannig er allur umbúnaður mjög góður og þetta allt hvetur mann til að koma hingað, búa hér og starfa.“

 

Um búferlaflutningana vestur á Reykhóla segir Finnur: „Við flytjum svona smátt og smátt, ég vonast til þess að í vor verði svo komið að við verðum bæði að staðaldri hér fyrir vestan. María er núna í ýmsum verkefnum og yngsta dóttir okkar er ekki farin að heiman, enda í skóla. Aðalviðfangsefni Maríu er doktorsverkefni á lokaspretti. Það snýst um að skoða hvaða áhrif það hefði á íslenskt samfélag að nota rafmagn í samgöngum og nýta rafbíla með og án vetnis í stað þess að nota innflutt bensín eða olíu.“

 

Finnur Árnason er fæddur árið 1958 og ólst upp á Seltjarnarnesi en var í sveit á sumrin í Vík í Skagafirði hjá Hauki Hafstað föðurbróður sínum. Hann fór í MR en gerði hlé á þeirri vegferð eftir fyrsta veturinn, fór á Hvanneyri og lauk þar búfræðiprófi. Hann tók síðan upp þráðinn í Reykjavík á ný og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð. „Á Hvanneyri fannst mér ákaflega gott að vera og náði þar kannski einhverjum áttum sem unglingur.“

 

Eftir stúdentspróf var Finnur eitt ár í líffræði í Háskóla Íslands. „Þar náði ég mér í konu, og skipti svo yfir í efnafræðina.“ Hann lauk síðan B.Sc.-námi í þeirri grein en María sömu gráðu í líffræði.

 

Foreldrar Finns voru Árni Hafstað, verkfræðingur hjá Landssímanum, og Arngunnur Ársælsdóttir hjúkrunarkona. „Pabbi var úr Skagafirðinum – þaðan er stór leggur af „Hafstöðum“, – sonur Árna Jónssonar Hafstað og Ingibjargar Sigurðardóttur. Mamma var dóttir Ársæls bókbindara Árnasonar og Svövu Þorsteinsdóttur eiginkonu hans.“

 

Þess má geta hér, að Ársæll Árnason bókbindari og bókaútgefandi í Reykjavík (Ársæll bókbindari) var landskunnur maður á sinni tíð og mikill félagsmálamaður. Hann var helsti hvatamaður þess að sauðnaut voru flutt til landsins og tók þátt í Gottuleiðangrinum fræga til Grænlands í þeim erindagerðum árið 1929.

 

María H. Maack eiginkona Finns er líffræðingur, eins og áður sagði, með sérgrein í umhverfismálum. Faðir hennar var Viggó E. Maack, skipaverkfræðingur hjá Eimskip, sem andaðist núna í október, en móðir hennar er Ásta Þorsteinsdóttir Maack.

 

Börn Finns og Maríu eru þrjú, Fífa, Einar og Ásta, á aldrinum 22 til 28 ára.

 

Að loknu námi í Háskóla Íslands voru þau Finnur og María tvö og hálft ár í Svíþjóð. Hann bætti við sig rekstrarhagfræði og lauk fil.kand.-prófi frá Gautaborgarháskóla í þeirri grein en María var í framhaldsnámi í líffræðinni með sjávareldi sem sérgrein. Lokaverkefni hennar var um ræktun á hörpuskel. Seinna fór María aftur til Svíþjóðar og bætti við námi í stjórnun og umhverfis- og hagfræði.

 

„Síðan komum við aftur heim til Íslands. Á þeim tíma var atvinnulífið í lægð eins og stundum. María réð sig vestur til Ólafsvíkur og var þar útibússtjóri fyrir Hafró í nokkra mánuði en ég var háseti á togaranum Má frá Ólafsvík,“ segir Finnur. „Þegar rannsóknaskip fékkst til botnrannsókna í innanverðum Breiðafirði þurfti ég að fara í land og sjá um krakkana. Þá nenntu þeir ekkert að hafa mig á togaranum og ég var látinn fara og fjölskyldan hrökklaðist í bæinn. Í framhaldi af því fékk ég vinnu í málningarverksmiðju Slippfélagsins í Dugguvogi og þar var ég framleiðslustjóri í níu ár.“

 

Eftir það lá leiðin norður í land. „Það var nú stutt stopp, hjá Loðskinni á Sauðárkróki sem framkvæmdastjóri, en María fékk vinnu á Byggðastofnun. En félagið var illa statt og það kom í minn hlut að finna maðka í mysunni. Síðar yfirtók bankinn reksturinn en þá var ég farinn. Það var auglýst eftir manni hjá fyrirtæki á Húsavík sem hét Aldin og var í eigu Kaupfélags Þingeyinga, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og fleiri,“ segir Finnur.

 

Aldin hf. flutti inn boli harðviðartrjáa frá Ameríku til sögunar og þurrkunar. Markmiðið var að framleiða smíðavið, aðallega til útflutnings. „Það félag var í vanda, bæði með aðföng og markaði. Þegar Kaupfélag Þingeyinga varð gjaldþrota, þá fór Aldin sömu leið.“

 

Í framhaldinu var Finnur ráðinn til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sem er í eigu íslenska ríkisins. Þar var hann fjárfestingastjóri í þrettán ár og sat í stjórnum margra sprotafyrirtækja fyrir hönd sjóðsins. Nýsköpunarsjóður skoðar fjölda nýrra hugmynda um atvinnurekstur og uppfinningar og fjárfestir í því sem þykir líklegast til mestrar arðsemi og þar með atvinnusköpunar. Fram til þessa hefur Nýsköpunarsjóður fjárfest í talsvert á annað hundrað fyrirtækjum.

 

„Eftir að ég hætti hjá Nýsköpunarsjóði var ég í nokkra mánuði starfandi stjórnarformaður hjá Sjávarleðri á Sauðárkróki, en þá hafði ég verið stjórnarformaður fyrirtækisins í um hálfan annan áratug. Þegar ég tók við stjórnarformennskunni í upphafi var þetta dótturfyrirtæki Loðskinns og var tveggja til þriggja manna vinnustaður. Núna eru þarna yfir þrjátíu starfsmenn og ég kom þarna inn til að gera tillögur um og vinna að breytingum á skipulagi fyrirtækisins og rekstri.“

 

Síðan fór Finnur að vinna í verkefni sem heitir Taktar og tengist ráðgjafarfyrirtækinu Kontakt í Reykjavík, en það hefur milligöngu um að fyrirtæki skipti um hendur. „Mitt hlutverk þarna snerist reyndar um allt annað. Það var að hafa uppi á litlum, vel þroskuðum iðnfyrirtækjum á Norðurlöndum sem gæti borgað sig að kaupa og flytja starfsemina til Íslands en halda sölu- og dreifileiðum áfram erlendis. Annar þáttur starfsins var síðan að hafa uppi á mögulegum fjárfestum hér á landi. Með þessu var hugmyndin sú að styrkja iðnað á Íslandi með fleiri og fjölbreyttari fyrirtækjum og skapa störf í félögum með töluverðar tekjur og hagnað í erlendum gjaldeyri.“

 

Eins og fram kom í upphafi segir Finnur að honum hafi verið mjög vel tekið hér á Reykhólum, fólkið alúðlegt og áhugasamt, ekkert áhugaleysi eða hlutleysi. „Við höfum verið á fleiri stöðum úti á landi en mér finnast móttökurnar hérna aðrar og betri,“ segir hann. Þegar viðmælandi Finns segir að fólki þyki efalítið vænt um að heyra þetta segir hann: „Mér finnst vænt um að geta sagt það. Þetta er bara svona. Ég veit ekki hvort það sem veldur þessu er að samfélagið hérna er smærra og þar með nánara en í stærri plássum.“

 

Varðandi verksmiðjuna í Karlsey sjálfa nefnir Finnur öryggismál sérstaklega.

 

„Þau eru grundvallaratriði í rekstri félagsins og kjarninn í þeim fasa sem félagið er í, þetta er uppbygging að innan. Nú eru öryggismál tekin föstum tökum og af áhuga. Nátengd þeim eru öguð vinnubrögð og þar með gæðamál, kerfi og reglufesta í ferlum og vinnutilhögun. Markaðir fyrir afurðir virðast góðir og því ákjósanlegt að geta nýtt afkastagetu, vélar og tæki betur en nú er. Þá höfum við áhuga á að koma upp betri þekkingu á hráefnum og líka á ólíkum þörfum viðskiptavina og skoða leiðir til að gera afurðir framleiðslunnar enn verðmætari. Þessu nátengd er umgengni við umhverfi og svo þáttur eða ábyrgð Þörungaverksmiðjunnar í samfélaginu, sveitarfélaginu Reykhólahreppi.“

 

- Viðtal: Hlynur Þór Magnússon.

 

Athugasemdir

Ingvar Samuelsson, rijudagur 17 desember kl: 20:28

Verið þið velkomin til Reykhola , og farnist þér vel í nýju starfi.

Sigurbjörn Sveinsson, rijudagur 17 desember kl: 20:57

Þetta er auðvitað eins og hvalreki. Fólk sem hefur þekkingu og etv. auga fyrir öllum þeim möguleikum, sem hanga utan á verksmiðjurekstrinum og affallsvatninu eins og jólaskraut, sem bíður eftir að fá athygli.

Björg Karlsdóttir, fimmtudagur 19 desember kl: 14:46

Frábært að fá svona náttúruvænt fólk á staðinn. Verið velkomin.

Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson, fimmtudagur 19 desember kl: 21:18

Ég get ekki annað en dauðöfundað þetta fólk :)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30