Samflotssíða - hvað segir fólk um þetta?
Mig hefur lengi langað til að vita hvort Reykhólasíðan væri til í að setja upp samflotshnapp. Hér á ég við hvort þú viljir setja upp þjónustu fyrir þá sem vilja vita af og bjóða ferðir til handa þeim sem vilja vera í samfloti. Þetta gæti heitið Ferða-Flotið af því maður neitar því sjaldan. Mér finnst sjálfsagt að menn greiði hluta af fararkostnaði í svona tilfellum, kannski 2500 kall eða eitthvað slíkt ef ferðinni er heitið til Reykjavíkur. Og mér finnst líka í lagi að minna á að einhver sporsla sé við hæfi, þótt vitaskuld geti sumir afþakkað slíkt.
Þetta segir María Maack á Reykhólum í pósti til umsjónarmanns þessa vefjar. Síðan segir hún:
- Í vetur hafa almenningssamgöngur hingað verið fremur dræmar en ég frétti að fólk héðan er á ferð og flugi á öllum tímum í ýmsum erindagjörðum. Sumir eiga skyldmenni sem láta hvert annað vita ef skreppa á til Hólmavíkur eða suður til dæmis. Kannski munar ekki miklu að taka einn grannan með í leiðinni. Sá granni gæti skoðað skilaboð í Ferða-Flotinu um það hvort einhver geti boðið eða vilji þiggja far á næstunni. Þannig nýtist olían betur, meira öryggi er fólgið í því að ferðast fleiri en einn saman og fólk getur til dæmis tekið lagið í nokkrum röddum á leiðinni.
- Nú vill þannig til að mig bráðvantar að komast suður til Reykjavíkur á miðvikudag síðdegis (eftir kl. 4) – hvernig gæti ég fundið út hvort einhver gæti hugsanlega verið á ferð þann daginn, gæti ég þurft að hliðra til kannski 1-2 klst. fram eða aftur...? Í það minnsta auglýsi ég hér með eftir að fá að vera í samfloti með einhverjum sem gæti átt leið til Reykjavíkur þann dag. – Það gæti einnig gengið ef lagt er af stað milli kl. 5 og 6 morguninn eftir.
Hvað finnst notendum Reykhólavefjarins um þessa hugmynd Maríu? Látið álit ykkar í ljós í athugasemdunum hér fyrir neðan, eða í tölvupósti til umsjónarmanns (vefstjori@reykholar.is), eða í sima 434 7735 / 892 2240.
Því má bæta við, að meðan búðarlaust er á Reykhólum er um nokkuð langan veg að fara að ná sér í mjólk og brauð eða bara eitthvað. Frá Reykhólum er ferðin í Kaupfélagið á Hólmavík um 116 km fram og til baka, yfir Þröskulda þar sem iðulega um þessar mundir er illviðri og ýmist ófærð eða flughálka, og ferðin í Samkaup í Búðardal er 150 km fram og til baka og um Svínadal að fara.
Líka gæti verið heppilegt ef greiðvikið fólk sem er að „skreppa“ í búð (á Hólmavík, í Búðardal, Borgarnesi eða Reykjavík) léti vita að kannski væri hægt að kippa einhverju með til baka. Einhverjum gæti þótt gott að vita af ferð í verslun í stað þess að fimmtán manns á jafnmörgum bílum séu á svipuðum tíma að „skjótast út í búð“ á annað hundrað kílómetra akstur eftir mjólk og brauði. Hver kannast ekki við að allt í einu er eitthvað smálegt sem vantar? Kaffi?
Ef einhverjar undirtektir fást við þessari hugmynd, þá er sjálfsagt að koma upp sérstakri síðu hér á vefnum fyrir samskipti af þessu tagi.
Varðandi það sem María sagði um flotið, sjá hér til upprifjunar.
Harpa, m�nudagur 19 jan�ar kl: 17:10
Líst vel á þetta :)