Samgöngumálin rædd að venju á Fjórðungsþingi
Fjórðungsþing Vestfirðinga er haldið í Bolungarvík í dag og á morgun. Þingið er aðalfundur Fjórðungssambands Vestfirðinga og sitja það fulltrúar allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Auk venjulegra þingstarfa í dag má nefna starfsskýrslu verkefnisstjóra Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks. Einnig kynningu á stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar á Vestfjörðum. Skýrsla fastanefndar sambandsins um samgöngumál verður á sínum stað enda hefur sá málaflokkur löngum brunnið á Vestfirðingum. Gústaf Jökull Ólafsson á Reykhólum er einn fimm aðalmanna í nefndinni en Eiríkur Kristjánsson á Reykhólum er varamaður. Í þinghléi verður aðalfundur Menningarráðs Vestfjarða haldinn.
Á morgun munu gestir ávarpa þingið, þeir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra (og þar með ráðherra sveitarstjórnarmála) og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra. Þá mun Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, formaður Fjórðungssambandsins, kynna Sóknaráætlun landshluta.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skipa nú:
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ísafjarðarbæ, formaður
Friðbjörg Matthíasdóttir, Vesturbyggð
Jón Jónsson, Strandabyggð
Ómar Már Jónsson, Súðavíkurhreppi
Sigurður Pétursson, Ísafjarðarbæ
Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli á sæti í varastjórn sambandsins. Meðal varamanna í heilbrigðisnefnd er Ingibjörg Kristjánsdóttir í Garpsdal.
Fjórðungsþing Vestfirðinga er nú haldið í 56. sinn. Það var fyrst haldið árið 1949 og ár hvert fyrstu árin. Á árunum 1953-1970 var þingið haldið annað hvert ár en hefur frá þeim tíma verið á hverju ári. Sérhvert sveitarfélag á Vestfjörðum kýs fulltrúa á þingið. Árið 2008 var Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Reykhólum - sjá myndasyrpu frá þinginu.
Fjórðungssamband Vestfirðinga er bandalag sveitarfélaga á Vestfjörðum, sameiginlegur vettvangur þeirra og málsvari. Um er að ræða frjáls samtök en ekki lögbundin. Tilgangur sambandsins er að vinna að hagsmunum vestfirskra sveitarfélaga og alls Vestfirðingafjórðungs. Fjórðungssamband Vestfirðinga fylgist náið með og beitir sér í málefnum sveitarfélaga, hvar sem þau kunna að vera til umfjöllunar, ekki síst á Alþingi, í ráðuneytum og ríkisstofnunum.
Dagskrá 56. Fjórðungsþings Vestfirðinga
Vefur Fjórðungssambands Vestfirðinga