Samið um velferðarþjónustu fyrir starfsmenn
Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur gert samning við Heilsuvernd ehf. í Reykjavík um velferðarþjónustu við starfsmenn fyrirtækisins og tekur hann til trúnaðarlæknisþjónustu, fjarveruskráninga, heilsuverndar starfsmanna og aðgengis þeirra að þjónustuveri Heilsuverndar.
Að sögn Einars Sveins Ólafssonar framkvæmdastjóra verksmiðjunnar færir samningurinn stjórnendum og starfsmönnum aukið aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki og upplýsingum um heilsuvernd. „Hann hefur líka forvarnargildi því markmiðið er að draga úr líkum á óþægindum, sjúkdómum og slysum sem geta tengst störfum hjá fyrirtækinu,“ segir hann.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þörungaverksmiðjunni hf.
Að gera betur í dag en í gær
Fyrirtækið hefur falið sérfræðingum Heilsuverndar að annast trúnaðarlæknisþjónustu við starfsfólkið og halda utan um fjarvistir og greiningu á ástæðum fjarvista. „Það er meðal annars af öryggisástæðum sem það er mikilvægt að geta greint ástæður fjarvista frá vinnu, sérstaklega ef þær má rekja til vinnunnar. Þannig getum við gert auknar ráðstafanir til að gera betur í dag en í gær,“ segir Einar.
Velferð starfsmanna
Þörungaverksmiðjan starfar í samræmi við stranga öryggis- og gæðastaðla til að tryggja velferð starfsmanna og heilnæmi og gæði framleiðslunnar og taka þeir til allra þátta í starfseminni. Einar segir að samstarfið við Heilsuvernd feli einnig í sér fræðslu til starfsmanna, m.a. um lífsstílstengda áhættuþætti, mataræði og fleira.
Aukin starfsánægja
„Þegar á botninn er hvolft má segja að með þessu viljum við viðhalda og auka starfsánægju með því að stuðla að vaxandi andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna, en það er líka ein þeirra góðu leiða sem stuðlar að færri veikindadögum og lítilli starfsmannaveltu.“