Tenglar

8. febrúar 2022 | Sveinn Ragnarsson

Samstarf Þörungamiðstöðvar og Hafró

Föstudag 4. febrúar 2022 rituðu f.h. Þörungamiðstöðvar Íslands, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitastjóri Reykhólahrepps og Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. annars vegar, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, rannsókna og ráðgjafastofnun hafs og vatns hins vegar undir viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum og vöktun þörunga í vistkerfi Breiðafjarðar. Tilgangur samstarfsins er að auka þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun einkum úr þangi og þara og sýna með rannsóknum að þessi sjávarauðlind sé nýtt á sjálfbæran hátt.

 

Þörungamiðstöð Íslands er hlutafélag með lögheimili í Reykhólahreppi og er í eigu m.a. Þörungaverk-smiðjunnar hf. og sveitarfélagsins. Tilgangur félagsins er að verða miðstöð þekkingaröflunar og fræða um þang og þara og safna í þekkingarbanka gögnum um nýtingu sjávarþörunga við Ísland, bæði ræktaðra og villtra. Einnig að stunda rannsóknir með áherslu á sjávarþörunga í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fyrirtæki og veita þeim aðstoð og aðstöðu, efla ræktun þörunga og þróa verðmætar afurðir og stuðla að fjölbreyttari atvinnu í Reykhólahreppi. Þörungamiðstöð Íslands í samstarfi við atvinnulífið, háskóla og rannsóknastofnanir er þannig ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu sem hvílir á niðurstöðum rannsókna, verða þekkingarmiðstöð auðlindarinnar og efla fjölbreytta fræðslu. Vonin er að fjölga atvinnutækifærum svæðisins með því að breikka vöruúrvali úr þangi og þara með nýrri úrvinnslu sem byggist á þekkingu.

 

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir mun móta starfsemi Þörungamiðstöðvar Íslands. Hólmfríður stýrði upphafi rannsókna sem tengdust sjávarútvegi, gæðastjórnun og fullnýtingu í Verinu á Sauðárkróki þar sem starfstöð Matís var mikilvæg. Í framhaldinu var sprotafyrirtækinu Protis hleypt af stokkunum.  Hólmfríður var hugmyndarsmiður Protis fiskprótín framleiðslunnar. Protis var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem setti upp framleiðsluferli fyrir þurrkað fiskprótín og -kollagen sem unnið er úr hliðarafurðum fiskvinnslu og selt undir vörumerkinu Protis Fiskprótín.

 

Reykhólahreppur vill efla fjölbreyttara atvinnu og með fjölbreyttari nýtingu auðlinda svæðisins, aukinni rannsókna- og þróunarstarfsemi og góðri aðstöðu fyrir nýbúa og þá sem fyrir eru. Undirritunin sýnir þessa stefnu og þátttaka í stofnun Þörungamiðstöðvarinnar hf. staðfestir sterka framtíðarsýn fyrir þorpið sem byggðist upp í kringum nýtingu þangs og þara upp úr 1970. Saga þörungavinnslu á Reykhólum er orðin 50 ára og sveitarfélagið því í sérstakri stöðu þar sem margir heimamenn eru núverandi eða fyrrum starfsmenn verksmiðjunnar og þar með gangverk verksmiðjunnar ásamt með landeigendum allt í kringum Breiðafjörð.

 

Sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun hafa rannsakað grunnsævi Breiðafjarðar, og gefið út skýrslur um ástand, vöxt og þéttleika þangs og þara í Breiðafirði. Er Karl Gunnarsson ótvíræður frumkvöðull þeirra rannsókna en nú eru að verða kynslóðaskipti í á ýmsum sviðum stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun gaf út fyrstu ráðgjöf um klóþang í  Breiðafirði árið 2017 og byggist hún á mati stofnunarinnar á heildarlífmassa fjarðarins. Við Breiðafjörð er um fjórðungur strandlengju Íslands og vaxtarskilyrði einstök. Stofnunin fagnar tækifæra til samstarfs um rannsóknir á þessari auðlind þar sem þang og þari draga að sér vaxandi athygli vegna fjölbreyttra nýtingarmöguleika.

 

Þörungaverksmiðjan hf. hefur stutt þörungarannsóknir með því að bjóða hráefni til tilrauna, farartæki, reynda sæfara og öryggisbúnað til aðstoðar. Mikil þekking og reynsla hefur orðið til á eðli hráefnisins, þurrkun og mölun. Þörungaverksmiðjan hf. tekur þátt í stofnun Þörungamiðstöðvar Íslands til að efla enn frekar rannsóknir á auðlindinni og sjá nýjar úrvinnsluleiðir til að breikka vöruúrval og auka verðmæti afurða. Þörungaverksmiðjan framleiðir sem fyrr hágæða þurrkað og malað klóþang og hrossaþara sem flutt er til fjarlægra heimshorna.  Það er vottað óblönduð lífræn vara og sjálfbær uppskera. Með aukinni þekkingu og tækniþróun hafa skapast gríðarleg tækifæri til fjölbreyttari nýtingar á þörungum og vinnslu verðmætra efna í matvæla-, snyrti og lyfjaiðnað með tilheyrandi verðmæta- og atvinnusköpun.

 

Á myndinni eru:

Guðmundur Þórðarson, yfirmaður botnsjávarsviðs

Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar

María Hildur Maack, sjávarvistfræðingur

Myndasmiður er Svanhildur Egilsdóttir

 

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30